Umræðan

Er kostnaður hluta­bréfa­sjóða of hár hér­lendis?

Baldvin Ingi Sigurðsson skrifar

Ég skrifaði grein á Vísi í júní um að fjárfestavernd hafi gengið of langt þar sem almennir íslenskir fjárfestar geta ekki keypt beint í erlendum kauphallarsjóðum sem ekki birta lykilupplýsingablað á íslensku. Þessi staða hefur varað síðan í byrjun árs 2023 vegna reglubreytinga en íslensk yfirvöld geta hæglega bætt úr.

Sem dæmi um kostnað sem íslenskir almennir fjárfestar standa frammi fyrir er Landsbréf-Global Equity Fund sem er sjóðasjóður. Inngöngukostnaður hans er 2% og viðvarandi gjöld 2,47%.

Eftir 1 ár er fjárfestir búinn að greiða 4,47% af sinni eign í kostnað skv. lykilupplýsingablaði hans. Ef hann fjárfestir fyrir 1 m.kr. í 20 ár með 10% ávöxtun mun hann eiga rúmlega 6,7 m.kr. án alls kostnaðar og fyrir skatta.

Ef fjárfestingin hefði verið í gegnum þennan sjóð með sömu ávöxtun hefði fjárfestirinn átt tæplega 4,2 m.kr. fyrir skatta. Fjárfestirinn væri með um 60% hærri upphæð hefði hann ekki þurft að greiða þennan kostnað.

Það er ljóst að kostnaður við að fjárfesta í íslenskum verðbréfasjóðum er almennt talsvert hærri en það sem býðst í sjóðum hjá erlendum rekstraraðilum.

Annar íslenskur sjóður sem fjárfestir í erlendum hlutabréfum er ÍV Erlent hlutabréfasafn. Inngöngukostnaður er 1%, umsýslukostnaður 1,5% og hann tekur 15% af ávöxtun umfram MSCI ACWI vísitöluna. Viðvarandi gjöld eru um 2,9% (umsýslukostnaður er inni í því), þannig að eftir eitt ár væri safnið búið að lækka um 3,9% miðað við 0% ávöxtun.

Ef íslensk yfirvöld samþykkja ensku sem tungumál í tengslum við lykilupplýsingaskjöl ættu almennir íslenskir fjárfestar að geta fjárfest í erlendum vísitölusjóðum þar sem kostnaðurinn er í kringum 0,2%, eða jafnvel enn lægri.

Einnig myndu opnast möguleikar á að fjárfesta í öðrum sjóðum sem beita virkri stýringu en með mun lægri kostnaði en íslensku sjóðirnir.

Það er ljóst að kostnaður við að fjárfesta í íslenskum verðbréfasjóðum er almennt talsvert hærri en það sem býðst í sjóðum hjá erlendum rekstraraðilum.

Mikilvægt er að fjarlægja hindranir þannig að almennir íslenskir fjárfestar hafi val um að fjárfesta í sjóðum erlendis. Það myndi stuðla að eðlilegri samkeppni og verða hvatning fyrir rekstraraðila íslenskra sjóða til að gera betur en áður þegar kemur að kostnaði við sjóði.

Höfundur er fjármálaráðgjafi.






×