Fótbolti

„Boltinn vildi ekki inn í dag“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Aron Sigurðarson í baráttunni í leik kvöldsins.
Aron Sigurðarson í baráttunni í leik kvöldsins. Vísir/Diego

„Nei, mér fannst þetta ekki sanngjörn niðurstaða, mér fannst við stjórna leiknum frá byrjun og vera með yfirhöndina allan leikinn,“ Sagði Aron Sigurðarson, leikmaður KR, eftir jafntefli liðsins gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld.

„Og ef einhver hefði geta stolið sigrinum voru það við. Við erum að skapa færi inni í markteignum hjá þeim með flottu spili, þetta var ekki sanngjarnt.“

Aron Sigurðarson átti nokkur færi á rammann í dag, meðal annars stangarskot í sitthvorum hálfleiknum en boltinn vildi ekki í netið.

„Boltinn vildi ekki inn í dag en samt sem áður var frammistaðan mjög góð gegn Íslandsmeisturunum og frábært að koma á Meistaravelli fyrir framan troðfulla stúku og spila á okkar velli, það var kominn tími til. Það er hægt að byggja ofan á þennan leik það er klárt mál.“

Staðan er ekki góð hjá KR-ingum en þeir sitja í næst neðsta sæti deildarinnar með 17 stig eftir sextán umferðir. Það er þó stutt á milli stiga hjá liðum í deildinni og ef KR-ingar ná að snúa gengi sínu við geta þeir unnið sig hratt upp um miðja deild.

„Sjálfstraustið er ekki farið, það er auðvelt að vera með mikið sjálfstraust þegar þú horfir á alla tölfræðina, þá erum við með miklu færri stig en tölfræðin gefur til kynna. Stigalega séð er þetta ekki nógu gott en við erum á frábærri leið og við höldum áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×