Innlent

Ekki þeir sömu og voru hand­teknir vegna fyrri þjófnaðarins

Árni Sæberg skrifar
Þekkir þú þessa menn? Ef svo vill lögreglan heyra frá þér.
Þekkir þú þessa menn? Ef svo vill lögreglan heyra frá þér. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill ná tali af tveimur mönnum í tengslum við rannsókn á þjófnaði úr skartgripabúð á miðvikudag. Þeir eru ekki þeir sömu og voru handteknir fyrir sambærilegan þjófnað á mánudag.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem því var komið á framfæri að hún vildi ná tali af tveimur mönnum vegna máls sem embættið hefði til rannsóknar. Ekki var tiltekið hvers eðlis málið væri.

Í gær var greint frá því að lögreglan hefði þjófnað úr skartgripaverslun í miðborginni á miðvikudag til rannsóknar. Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, staðfestir í samtali við Vísi að lögregla vilji ræða við mennina vegna þjófnaðarins.

Á mánudag var sambærilegur þjófnaður framinn í annarri skartgripabúð í miðborginni og tveir handteknir vegna hans. Hluti þýfisins fannst í fórum þeirra og þeim var sleppt að lokinni skýrslutöku. Unnar Már segir þá ekki mennina sem lögregla óskar nú eftir að ræða við í tengslum við síðari þjófnaðinn.

Þá segir hann að lögreglan búi yfir góðu myndefni úr eftirlitsmyndavélum í báðum málum, enda hafi annað þeirra þegar verið upplýst. Loks segir hann að andvirði skargripanna sem var stolið á miðvikudag nemi allt að einni milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×