Körfubolti

Landsliðsmenn buðust til að ræða við Craig: „Var ekki að fara grát­biðja hann í annað sinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísland - Úkraína. Landsleikur karla sumar 2022 körfubolti KKÍ Kristófer Acox
Ísland - Úkraína. Landsleikur karla sumar 2022 körfubolti KKÍ Kristófer Acox vísir/Hulda Margrét

Kristófer Acox segir að félagar hans í íslenska karlalandsliðinu í körfubolta hafi kallað eftir kröftum hans í einkasamtölum í sumar. Þeir hafi boðist til að eiga orð við landsliðsþjálfarann Craig Pedersen vegna stöðu hans.

Líkt og greint hefur verið frá á Vísi um helgina tjáði Pedersen Kristóferi það á fundi í febrúar að hann ætti enga framtíð með landsliðinu meðan Pedersen stýrði liðinu. Sagan af þeim fundi er rakin hér.

Kristófer segist ekki hafa leitast eftir samskiptum við Pedersen eða KKÍ síðan, og sömuleiðis ekki heyrt frá neinum þar á bæ. Liðsfélagar og vinir hans í landsliðshópnum hafi aftur á móti verið í sambandi við Kristófer og spurt hvort hann hafi ekki viljað láta reyna aftur á þetta.

Liðsfélagarnir hafi verið reiðubúnir að ræða við Pedersen í von um að honum myndi snúast hugur. Kristófer segir sambandið hreinlega brostið milli hans og landsliðsþjálfarans.

„Það var þannig séð ekki ástæða fyrir mig að heyra í honum aftur. Ég var ekki að fara grátbiðja hann í annað sinn að gefa mér tækifæri. Ég hef talað við leikmenn í liðinu sem hafa spurt hvort ætti ekki að reyna á þetta aftur og hvort þeir myndu þá geta tekið fund með Craig og reynt að láta hann gefa eftir. Það var fyrir nokkrum vikum en mér fannst það orðið of seint,“

„Ég hef ekki heyrt frá honum eða KKÍ í nokkra mánuði. Mér fannst smá vanvirðing hvernig var komið fram við mig. Ég var ekki að fara í annað sinn að reyna að rétta fram sáttarhönd og fá aftur kalt nei í framan. Þetta sveið í nokkra daga eftir fundinn en lífið heldur áfram,“ segir Kristófer.

Viðtalið í heild má nálgast í spilaranum sem fylgir fréttinni og sömuleiðis á síðunni Besta sætið á öllum helstu hlaðvarpsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×