Í Innherja 11. júlí síðast liðinn vakti athygli mína grein sem Kristófer Oliversson skrifar, hann er helsti baráttumaður fyrir skattlagningu á ferðaþjónustu, þ.e. skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands. Hann gagnrýnir þar að endurskoða eigi innviðagjald á skemmtiferðaskip sem sett var á með nokkra vikna fyrirvara fyrir síðustu áramót. Þar segir hann m.a. eftirfarandi:
„Um áramót var í samræmi við nýsamþykkta ferðamálastefnu Alþingis lagt sérstakt innviðagjald, 2500 kr. á farþega, á stóru skipin. Þá hafa fulltrúar aflandsskipanna sérstaklega vísað til skatta á svokölluð leiðangursskip, sem dvelja við Ísland yfir sumarið og sigla á milli hafna hring eftir hring í kringum landið. Í þeim efnum er mikilvægt að hafa í huga að þau skip greiða aðeins gistináttaskatt, ekki innviðagjald, og að sá skattur var lækkaður um síðustu áramót úr 1000 kr. í 800 kr. á káetu. Á sama tíma var gistináttaskattur á hótel hækkaður úr 600 kr. í 800 kr. á herbergi.“
Greinin er full af rangfærslum þrátt fyrir að ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að leiðrétta manninn. Hann segir meðal annars að skemmtiferðaskipin séu í raun fljótandi aflandshótel sem hafa fram á 2024 ekki greitt neina skatta á Íslandi og því notið mikils forskots í samkeppni við hótel og gististaði í landi.
Hvert forskotið er segir hann ekki, nema þá að það séu skattarnir. Það er nokkuð ljóst að honum hefur með áróðri sínum tekist að fá stjórnvöld til þess að afnema tollfrelsi leiðangursskipa sem siglt hafa hringinn í kringum landið frá 2012 og komið við á rúmlega 30 smá höfnum hringinn í kringum landið, hvar Kristófer hefur ekki byggt nein hótel. Áður höfðu skemmtiferðaskip einungis viðkomu á um 10 höfnum, lang flestar komur þó á Akureyri, Ísafirði og Reykjavík. Með tilkomu tollfrelsis jukust komur leiðangusskipa töluvert eins og dæmin sanna, frétt um Raufarhöfn er nýjasta dæmið.
Skipakomur á 30 staði á landsbyggðinni, hvar hótel eru fá og smá
Skipin hafa skipt miklu máli fyrir minni hafnir í fyrrum sjávarútvegsbyggðum sem eiga fátt eftir nema ágæta hafnaraðstöðu sem hentar stærri skipunum vel en leiðangursskipin þurfa í raun ekki sérbúna hafnaraðstöðu. Þeim fjölgar því miður sem afbóka komur sínar vegna afnáms tollfrelsisins á mínu svæði. Þau einfaldlega sigla annað og fækka viðkomum á höfnum við Ísland. Í síðustu viku bárust 11 afbókanir frá einni útgerð leiðangursskipa á Djúpavog og 3 til Borgarfjarðar eystri fyrir árið 2026 sem er afleitt. Þessi skip eru mikilvæg fyrir hafnirnar og nærsamfélag þeirra, þau eiga talsverð viðskipti við heimamenn.
Ég skora á Kristófer að setja sig í spor þeirra sem starfa við ferðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum og fyrrum sjávarútvegsplássum.
Flestir erlendir ferðamenn sem koma til landsins eyða mestum tíma og kaupa þjónustu á suð-vestur horninu, þar sem Kristófer hefur einmitt byggt sín hótel. Þau fara lengst í dagsferðir austur í Jökulsárlón eða vestur á Snæfellsnes. Lengra fara þeir ekki, nema þeir sem ferðast á bílaleigubílum eða húsbílum hringinn í kringum landið já eða koma til landsins með skemmtiferðaskipum. Erlendir ferðamenn koma lítið á Austurland yfir vetrartímann. Með bættu aðgengi að millilandaflugi norður á Akureyri og vonandi í bráð austur á Egilsstaði hefur ferðamönnum fjölgað lítið eitt yfir vetrartímann.
Afþreying og aðgengi sem byggst hefur upp vegna þjónustu við skemmtiferðaskipin kemur sér afar vel fyrir alla ferðaþjónustu og tengda afþreyingu. Samgöngur og aðgengismál er þó brýnt að laga ef landið á að verða aðgengilegt fyrir alla, allt árið. Áhugavert er að skoða gistináttatölur Hagstofunnar sem birtar voru í mars síðastliðnum og ferðamálastofa vekur athygli á. Á svæði Kristófers fækkaði gistinóttum um 9% en á mínu svæði, sem er Austurland, fækkaði þeim um 39%. Skemmtiferðaskip er ein ferðaleið til og um landið til viðbótar við flug, húsbíla og bílaleigubíla. Mikið er rætt um að „dreifa“ ferðamönnum um landið sem virðist bara vera í orði en allsekki á borði. Móttaka skemmtiferðaskipa er mjög góð leið til að dreifa ferðamönnum til þeirra staða sem eru ekki með hótel eða gististaði nema í mjög litlum mæli.
Há gjaldtaka á skip þrátt fyrir háa eyðslu farþega
Ég skora á Kristófer að setja sig í spor þeirra sem starfa við ferðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum og fyrrum sjávarútvegsplássum. Ég bý í einum af þessum bæjum sem hefur misst kvóta og fiskvinnslu sem og þjónustu eins og netagerð, rafmagnsverkstæði, vélsmiðjur ofl. sem tengist sjávarútvegi. Megin atvinnuvegurinn í dag er ferðaþjónusta og skipakomur með farþega.
Kristófer talar ferðaþjónustuna niður þótt gangrýninni sé almennt beint að skipunum. Það er afleitt og kallast beinlínis atvinnurógur á mínu móðurmáli. Hann fer ekki með rétt mál sem er enn verra fyrir mann sem er formaður fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Hann segir hótel greiða 10 – 20 þúsund kr. á hvert herbergi í skatta og skyldur fyrir hverja nótt og útskýrir ekkert nánar hvað það felur í sér. Hann segir leiðangursskipin einungis greiða gistináttagjald og nú stærri skipin bara Innviðagjald. Sem er heldur ekki rétt!

Ég skora á Kristófer Óliversson formann Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu til þess að leggja fram yfirlit yfir gjöld og skatta pr. gest/herbergi, pr nótt sem sýnir þær tölur sem hann er að kljást við og þá hvað hans hótelgestir skili inn í hagkerfið pr nótt.

Hann má þá á sama tíma einnig hafa hugfast að erlendir gestir okkar senda nú kvörtunarpósta m.a. eins og þennan hér, á okkur sem störfum í ferðaþjónustunni: „After booking our trip, I was informed of a daily personal fee of 2,500 ISK per person in Iceland. I understand that this fee also applies to children, which would amount to a total of 87,500 ISK for our family over the five days.“
Viðkomandi spurði jafnframt hvort Íslendingar myndu sætta sig við slík eftirágjöld þegar þeir heimsæktu áfangastaði í Evrópu. Kristófer hlýtur að sjá að erlendir gestir gera lítinn greinarmun á því hvaðan dýrtíðin á Íslandi kemur. Fyrir þeim er þetta einfaldlega gjaldtaka á ferðaþjónustu, sem Kristófer barðist hart fyrir.
Höfundur er markaðsstjóri hafna Múlaþings og fyrrum bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar.