Innlent

„Eini ras­isminn sem ég hef upp­lifað á Ís­landi er frá lög­reglunni“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Allir viðmælendur lýstu því að hafa upplifað einhvers konar stimplun í samskiptum við lögreglu eða í kjölfar þeirra, þó að birtingarmyndirnar væru mismunandi.
Allir viðmælendur lýstu því að hafa upplifað einhvers konar stimplun í samskiptum við lögreglu eða í kjölfar þeirra, þó að birtingarmyndirnar væru mismunandi. Vísir/Vilhelm

Innflytjendur sem haft hafa afskipti af löggæslukerfinu upplifa vantraust og mismunun af hálfu lögreglu og telja sig fyrir stimplun sem afbrotamenn án þess að hafa sýnt af sér frávikshegðun. Þessi stimplun virðist ekki byggjast á raunverulegri hegðun heldur tengjast ákveðnum félagslegum einkennum, það er að segja á kynþætti, uppruna, búsetu, félagslegri stöðu eða fyrri tengslum við lögreglu.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Andreu Óskar Grettisdóttir í tengslum við lokaverkefni hennar til MA gráðu í afbrotabræði við Háskóla Íslands síðastliðið vor en markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig innflytjendur verða stimplaðir sem afbrotamenn af þegnum og stofnunum samfélagsins eftir að hafa upplifað réttarvörslukerfið hér á landi, og einnig hvort innflytjendur séu líklegri en aðrir til að upplifa neikvæða reynslu af réttarvörslukerfinu og hvernig stimpillinn getur mótað sjálfsmynd þeirra.

Viðvarandi ímyndir

Í tengslum við rannsóknina ræddi Andrea við tíu karlmenn á aldrinum 18 til 32 ára sem eiga það sameiginlegt að vera innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð og hafa upplifað afskipti af löggæslukerfinu, til að mynda verið handteknir, sætt ákæru eða hlotið fangelsisdóm á Íslandi.

Allir viðmælendur lýstu því að hafa upplifað einhvers konar stimplun í samskiptum við lögreglu eða í kjölfar þeirra, þó að birtingarmyndirnar væru mismunandi. Útlitseinkenni, erlent nafn eða fyrri tengsl við lögreglu virtust duga til að festa afbrotastimpil við þá í augum yfirvalda og samfélagsins. Þeir lýstu því hvernig þessar ímyndir væru viðvarandi og hefðu áhrif á samskipti þeirra við bæði yfirvöld og samfélagið í heild.

Sjö af tíu viðmælendum lýstu því að þegar lögreglan hafði afskipti af þeim hafi þeir upplifað að starfshættir lögreglunnar væru ekki í samræmi við alvarleika brotsins. Svo virðist fyrir þeim að lögreglan sé að gera auknar ráðstafanir á grundvelli staðalímynda eða fyrri tengsla þeirra við lögregluna.

Enn viðmælandi lýsti því þannig: „Mér leið bara eins og ég væri einhver geðveikur krimmi, bara hvernig þeir töluðu við mig, eins og ég hefði rænt banka eða eitthvað slíkt. Þeir komu fram við mig eins og ég sé kókaínsali. Ég er ekki fyrsta manneskjan sem hefur verið stoppað bílprófslaus.“

Annar úr hópnum kveðst hafa verið stoppaður af lögreglu sextán sinnum þegar hann var að skemmta sér á útihátíð. Hann er þekktur innan lögreglunnar vegna fyrri afbrota og lýsir þeirri tilfinningu að brotin fylgi honum hvert sem hann fer.

„Ég var labbandi, ekki að gera neitt, þetta var bara til að leita á mér. Þeir voru með leitarhunda, en þeir fundu ekki neina lykt eða neitt. Hundarnir voru ekkert að pæla í mér, en þau stoppuðu mig 16 sinnum, bara út af því að þeir vissu hver ég er. Lögreglukonan sagði að mér ætti ekki að vera hleypt inn á hátíðina. „Þetta er fyrir fjölskyldufólk og gott fólk í samfélaginu.“ Hún sagði eitthvað þannig, bara eins og ég væri skítur, að ég ætti ekki að vera hérna.“

Upplifun á ólíkri meðferð hjá löggæslu

Það var algengt á meðal viðmælenda að þeir upplifðu mismunun þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Flestir lýstu tíðum og ítrekuðum afskiptum sem að þeirra mati byggðust ekki á raunverulegum grun heldur frekar á útliti þeirra, uppruna, félagslegri stöðu, félagsskap eða jafnvel staðsetningu. Sumir lýstu óhóflegri valdbeitingu af hálfu lögreglu, á meðan aðrir upplifðu aukið og sífellt eftirlit sem tengdist félagslegri flokkun eða menningarbundnum þáttum.

Upplifun viðmælenda á ólíkri meðferð hjá löggæslunni var meðal annars að þeir túlkuðu framkomu lögreglu í afskiptum við þá sem sérkennilega og stangast á við hefðbundna hegðun lögreglumanna við aðra samfélagsþegna.

Einn viðmælandi upplifði að lögreglan liti á hann sem síendurtekið vandamál.

„Ég fékk einu sinni hótun frá lögreglunni þegar ég var að rúnta með einum félaga mínum. Lögreglan var að hraðamæla og ákvað að stoppa mig. Þá segir lögreglukonan: „Við erum að fara að fylgjast mjög mikið með þér.“

Annar úr hópnum lýsir misrétti sem hann upplifði í réttarvörslukerfinu

„Ég var kýldur af engri ástæðu. Ég kæri hann og fer í skýrslutöku. Svo fæ ég símtal frá löggunni þar sem þeir segja að þeir geti ekki gert neitt meira úr þessu, því það sé engin myndavél eða að myndavélar hafi ekki virkað. Ég var bara: „Hm, ókei - því það er bókstaflega myndavél beint fyrir ofan. Ég fer að spjalla við fólk og lögfræðing hérna í bæjarfélaginu sem ég þekki og það var bara sagt að pabbi hans væri í löggunni og það hefði haft áhrif á þetta, eða að hann hefði bjargað þessu."

Margir viðmælendur töldu að meðferð lögreglu gagnvart þeim væri mótuð af uppruna þeirra fremur en hegðun eða aðstæðum.Vísir/Vilhelm

Tíð afskipti

Margir viðmælendur lýstu þeirri upplifun að samskipti þeirra við lögreglu væru síendurtekin og án haldbærra skýringa. Í þeirra huga virtust afskipti tengjast þáttum eins og útliti, félagslegri stöðu, staðsetningu, stimplun eða tengslum við ákveðna hópa. Með tímanum urðu slík afskipti hluti af hversdagslífinu og einkenndust af mynstri sem virtist endurtaka sig.

Einn úr hópnum sagðist ítrekað hafa verið stöðvaður ítrekað af lögreglu í umferðinni, þrátt fyrir að aldrei hafi verið skráðir punktar á ökuferil hans.

„Ég var tekinn inn í lögreglubíl fyrir að borða banana, það var tekin niður skýrsla. Ég var að keyra í Breiðholtinu og var á leiðinni á fótboltaæfingu.“

Annar viðmælandi sagðist einnig hafa orðið fyrir óvenju tíðum afskiptum á stuttum tíma. Hann lýsir því að vera stöðvaður ítrekað undir formerkjum ,,grunsamlegra mannaferða” án þess að hann hafi talið sig brjóta nein lög.

„Ég var stoppaður fjórum sinnum á einu kvöldi. Ég held að þú megir ekki stoppa manneskju svona oft á einu kvöldi. Grunsamlegar mannaferðir? Það er ekki trúverðugt að þú sért svona stoppaður svona oft út af því. Það er ekki tilviljun, ég myndi ekki segja það.“

Kynþáttabundin löggæsla

Upplifun meirihluta viðmælenda af samskiptum og nálgun lögreglu var sú að kynþáttur eða uppruni þeirra hefðu bein eða óbein áhrif á það hvernig hún nálgaðist þá eða fylgdi þeim eftir. Viðmælendur túlkuðu að menningarleg einkenni þeirra, til að mynda kynþáttur, málfar, uppruni eða klæðnaður sem aðgreindi þá frá meirihlutanum, væru notuð sem vísbending um grunsamlega hegðun. Jafnvel í aðstæðum þar sem engin augljós ástæða var fyrir afskiptum lögreglu. Margir viðmælendur töldu að meðferð lögreglu gagnvart þeim væri mótuð af uppruna þeirra fremur en hegðun eða aðstæðum.

Einn viðmælandi kvaðst hafa verið ranglega bendlaður við atvik vegna lýsingar á húðlit.

„Það er einhver gæji með hníf þarna og það er hringt á lögregluna og sagt að hann sé dökkur. Þeir fara þá ósjálfrátt beint á mig en ég segi að þeir séu að handtaka vitlausan gæja.“

Annar viðmælandi lýsti orðræðu og framkomu lögreglunnar með þessum hætti:

„Inni í bílnum voru þeir ógeðslega leiðinlegir. Þeir voru bara að horfa á mig fram og til baka, horfa á hvern annan og flissa. Einn þeirra sagði: „Þið fólkið eruð alltaf að gera eitthvað vesen hérna heima. Ég er að vinna hérna og er að hjálpa fólki, en þið útlendingarnir eruð að skemma landið með því að vera hérna. Þið komið hingað og eruð bara að skapa vandamál og eruð ekki til friðs.“

Rofið traust til lögreglunnar

Níu af tíu viðmælendum lýstu því að traust þeirra til lögreglu hefði rofnað í kjölfar endurtekinna neikvæðra samskipta eða ósanngjarnar meðferðar. Fyrri reynsla þeirra af lögreglu, einkum þegar hún fól í sér valdbeitingu eða mismunun, hafði djúpstæð áhrif á hvernig þeir upplifa réttlæti og öryggi í dag.

Einn úr hópnum lýsti vantrausti á viðbrögðum og hlutleysi lögreglu.

„Eini rasisminn sem ég hef upplifað á Íslandi er frá lögreglunni. Ég hef séð, til dæmis, þegar vinir mínir blása bara, en svo er ég spurður einhverra frekari spurninga.

Annar viðmælandi sagðist heldur ekki treysta lögreglunni.

„Ég treysti ekki lögreglunni núna. Ég treysti þeim ekki vegna þess að ég var að reyna að stoppa þetta, ég var að reyna að hjálpa, og svo var ég kýldur. Það bara kveikti á mér, ég fór í vörn og já, þetta endaði illa. Ég var handtekinn en ekki þeir sem byrjuðu slagsmálin.“

Fáar rannsóknir til

Að sögn Andreu varpar rannsóknin ljósi á mikilvægt og lítið rannsakað svið í íslensku samhengi: hvernig innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð upplifa samskipti sín við réttarvörslukerfið og hvernig afbrota- og kynþáttastimplun tvinnast saman í þeirri upplifun.

„Enn fremur eru fáar rannsóknir erlendis sem skoða afbrota- og kynþáttastimplun sem samtvinnuð jaðarsett einkenni, sem undirstrikar nauðsyn þess að vinna frekar með þetta sjónarhorn.“

Þá segir Andrea að í ljósi niðurstaðna væri gagnlegt fyrir framtíðarrannsóknir að skoða hvernig fjölmiðlar og opinber orðræða móta ímynd innflytjenda sem afbrotamenn og hvernig slíkar sögur styrkja eða viðhalda kerfisbundinni stimplun.

„Einnig gæti samanburðarrannsókn á milli Íslands og annarra Norðurlanda varpað ljósi á áhrif ólíkra réttarvörslukerfa og samfélagskerfa á upplifun innflytjenda af kynþátta- og afbrotastimplun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×