Skoðun

Hannað fyrir miklu stærri markaði

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

„Við búum við regluverk sem er oft á tíðum hannað fyrir mun stærra markaðsumhverfi. Fjármálaþjónusta er þar af leiðandi tiltölulega dýr á Íslandi miðað við hvað gengur og gerist annars staðar,“ sagði Har­ald­ur Þórðar­son, for­stjóri Skaga, í Dagmálum á mbl.is í gær en nær allt regluverk um fjármálamarkaðinn á Íslandi kemur frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Ófáir aðilar bæði í viðskiptalífinu hér á landi sem og stjórnsýslunni hafa í vaxandi mæli bent á þetta.

Til að mynda var fjallað um það á ársfundi Sam­taka fyr­ir­tækja í fjár­málaþjón­ustu (SFF) fyrr á árinu að Evrópusambandið hefði regluvætt sig úr samkeppni við Bandaríkin og Asíu. „Við höfum eins og önnur Evrópuríki verið að kvarta yfir of miklu af reglum sem flæða hérna yfir og okkur ber skylda til þess að taka inn,“ sagði Heiðrún Jóns­dótt­ir, framkvæmdastjóri samtakanna, aðspurð um þetta í Dagmálum 17. apríl síðastliðinn með vísan til aðildarinnar að EES-samningnum.

Fram kom í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í Dagmálum í ágúst 2022 að eftirlitskröfur, sem rekja mætti til regluverks frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn, þýddu að vinna færi í vaxandi mæli í skriffinsku. Sífellt fleiri handtök innan bankakerfisins færu þannig í það að fylla út skýrslur. Virkt eftirlit væri mikilvægt en að mætti hins vegar ekki verða svo íþyngjandi að starfsfólk fjármálastofnana væri aðallega að horfa í baksýnisspegilinn.

„Ég held að það sé ógerningur fyrir fólk sem vinnur ekki við þetta að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og flókið regluverkið er orðið,“ sagði Unnur Gunnarsdóttir, þáverandi varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits Seðlabankans, við Innherja í lok árs 2021 um regluverk frá Evrópusambandinu um fjármálamarkaðinn. Tók hún þar undir orð kollega sinna frá Danmörku og Noregi um að regluverkið væri of flókið. Svo flókið raunar að það kæmi niður á eftirlitshlutverkinu.

Fram kemur í skýrslu sem unnin var af ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur árið 2016 að mikill meirihluti lagafrumvarpa, sem samþykkt voru á Alþingi á árunum 2013-2016 og höfðu íþyngjandi áhrif á hérlent atvinnulíf, hafi falið í sér innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu en nefndin var meðal annars skipuð fulltrúum frá Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands auk stjórnvalda. Svonefnd gullhúðun hefði átt sér stað í minnihluta tilfella.

Tvær stórar og ítarlegar skýrslur sem ritaðar voru fyrir Evrópusambandið á síðasta ári lýsa því vel hvernig íþyngjandi regluverk sambandsins um innri markað þess hefur degið sífellt meira úr samkeppnishæfni þeirra ríkja sem eru undir það sett. Einkum gagnvart Bandaríkjunum og Asíu. Þar með talið Íslands vegna EES-samningsins. Tímabært er að skipta samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning eins og við gerðum í tilfelli Bretlands. Án þess að neitt færi á hliðina.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×