Erlent

Hæsti­réttur opnar á brott­flutning til þriðja ríkis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Suður-Súdan er stríðshrjáð land.
Suður-Súdan er stríðshrjáð land. Getty

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur lagt blessun sína yfir brottflutning átta manna til Suður-Súdan, jafnvel þótt aðeins einn þeirra eigi rætur sínar að rekja þangað.

Um er að ræða ólögregla innflytjendur í Bandaríkjunum sem hafa verið dæmdir fyrir alvarlega glæpi. Þeir dvelja nú á herstöð í Djíbútí, þar sem þeir hafa beðið þess að málið yrði útkljáð fyrir dómstólum vestanhafs.

Brottflutningur mannanna var stöðvaður af dómara á lægra dómstigi, sem sagði að ef stjórnvöld vildu flytja fólk til þriðja ríkis þyrftu þau fyrst að sýna fram á að það myndi ekki sæta pyntingum. 

Hæstiréttur felldi þann dóm niður, án útskýringa, og lögmenn mannanna leituð aftur til áðurnefnds dómara sem stöðvaði brottflutninginn á ný.

Stjórnvöld leituðu þá aftur til Hæstaréttar og kröfðust þess að dómstóllinn útskýrði ákvörðun sína og hvort hún ætti við um umrædda átta einstaklinga. Hæstiréttur sagði í gær að já, hann ætti við um þá.

Dómararnir Sonia Sotomayor og Ketanji Brown Jackson andmæltu og sögðu ákvörðunina fela í sér að stjórnvöld myndu senda mennina, sem hefðu verið fluttir ólöglega úr landi til Djíbútí, til Suður-Súdan þar sem þeir yrðu afhentir þarlendum yfirvöldum án nokkurar staðfestingar á því að þeir yrðu ekki pyntaðir.

Mennirnir eru frá Víetnam, Suður-Kóreu, Mexíkó, Laos, Kúbu og Mjanmar.

Frá því að Donald Trump tók aftur við forsetaembætti hafa stjórnvöld sett sér það markmið að flytja fjölda ólöglegra innflytjenda úr landi, jafnvel til þriðja ríkis. Þau hafa meðal annars gert samning við El Salvador um að taka við mönnum og vista í fangelsi, jafnvel þótt þeir hafi ekki verið dæmdir fyrir glæp í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×