Fótbolti

Karó­lína Lea orðin leik­maður Inter

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Karólína hefur væntanlega tekið þessa mynd í Mílanó áður en hún kom til móts við íslenska landsliðið fyrir EM.
Karólína hefur væntanlega tekið þessa mynd í Mílanó áður en hún kom til móts við íslenska landsliðið fyrir EM. inter

Ítalska félagið Inter hefur fest kaup á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, landsliðskonu Íslands sem spilar fyrsta leik gegn Finnlandi á Evrópumótinu í Sviss síðar í dag. Karólína skrifar undir samning til ársins 2028. 

Inter staðfesti kaupin á miðlum félagsins. Kaupverðið kemur ekki fram en vitað er að ítalska félagið þurfti að leggja fram fé til að klófesta Karólína. 

Karólína kemur til Inter frá Þýskalandsmeisturum Bayern Munchen en hún hefur verið að láni hjá Bayer Leverkusen í sömu deild síðustu tvö ár.

Hún kom alls við sögu í 37 leikjum fyrir Bayern Munchen síðan hún skipti til félagsins frá Breiðabliki árið 2021 og varð Þýskalandsmeistari tvisvar.

Inter endaði í öðru sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tryggði sér sæti í Meistaradeildinni. 

Karólína er annar íslenski leikmaðurinn sem félagið semur við síðasta sólarhringinn. Í gærkvöldi var tilkynnt að Cecilía Rán Rúnarsdóttir yrði leikmaður Inter til frambúðar eftir að hafa verið þar að láni frá Bayern Munchen á síðasta tímabili.

Karólína ræddi félagaskiptin til Inter stuttlega í fyrradag, áður en hún gat staðfest þau, en sagðist mjög sátt.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×