Skoðun

Sósíalista­flokkurinn heimilis­laus - hvað næst?

Trausti Breiðfjörð Magnússon skrifar

Sósíalistaflokkurinn stendur á tímamótum. Nú loksins er hægt að horfa fram á við eftir fund Vorstjörnunnar, þar sem borgarfulltrúi Sósíalista rak flokkinn úr eigin húsnæði. Það var fyrsta verk hinnar nýju stjórnar sem hún tók sæti í. Sá gjörningur dæmir sig sjálfur en hann hefur skilið eftir sig mikið óbragð í munni flokksmanna. Þar á meðal eru þau sem byggðu flokkinn upp með berum höndum, og sáu til þess að hann gæti starfað í Bolholti. Fyrsta „góðverk” Vorstjörnunnar var að henda þeim út.

Þó að þessi staða sé hálf hlægileg, þá hefur hún þjappað flokksmönnum saman sem aldrei fyrr. Einhugur ríkir um að horfa framávið og byggja hreyfinguna upp. Ný forysta ætlar að ferðast um landið í sumar og ræða við félaga. Nú þegar hafa nokkur bæjarfélög verið heimsótt og mun fleiri eru á döfinni. Þetta, ásamt því að byggja upp svæðisfélög, þar sem félagar verða valdefldir í sínu nærsamfélagi, eru fyrstu skref flokksins til þess að styrkja sig á landsbyggðinni.

Að hafa ræktað upp gott tengslanet og komið upp svæðisfélögum sem umvefja allt landið, gerir okkur kleift að koma sterk inn í næstu sveitarstjórnarkosningar. Við erum óhrædd og full af bjartsýni. Flokkurinn er fullur af hópi fólks sem brennur fyrir samfélagi allra óháð efnahag. Þar sem vinnandi fólk hefur völd yfir sínu eigin lífi og umhverfi.

Ég hvet alla áhugasama til þess að skrá sig í flokkinn. Jafnframt bendi ég þeim sem eru skráðir í hann, að huga að stofnun svæðisfélaga. Sósíalistaflokkur Íslands getur veitt þér alla þá aðstoð sem þú þarft. Endilega hafðu samband og þér verður svarað. Valdið er þitt og ný forysta styður þig alla leið!

Skráning í flokkinn hér: https://skraning.sosialistaflokkurinn.is/

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×