Körfubolti

Úlfarnir bitu frá sér og unnu 42 stiga sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julius Randle og Anthony Edwards skoruðu samtals 54 stig gegn Oklahoma City Thunder í nótt.
Julius Randle og Anthony Edwards skoruðu samtals 54 stig gegn Oklahoma City Thunder í nótt. getty/David Berding

Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum Vesturdeildar NBA vann Minnesota Timberwolves yfirburðasigur í þriðja leik liðanna, 143-101.

Anthony Edwards skoraði þrjátíu stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar fyrir Úlfana, allt í fyrstu þremur leikhlutunum. Engin þörf var á að hann léki 4. leikhluta enda úrslitin þá ráðin.

Minnesota byrjaði leikinn af miklum krafti og var með tuttugu stiga forskot eftir 1. leikhluta, 34-14. Í hálfleik munaði svo 31 stigum á liðunum, 72-41.

Julius Randle skoraði 24 stig fyrir Minnesota og nýliðinn Terrence Shannon kom með fimmtán stig af bekknum. Úlfarnir hittu úr helmingi þriggja stiga skota sinna í leiknum og unnu frákastabaráttuna, 50-31.

Nýkrýndur verðmætasti leikmaður deildarinnar, Shai Gilgeous-Alexander, náði sér ekki á strik, hitti aðeins úr fjórum af þrettán skotum sínum og endaði með fjórtán stig líkt og Ajay Mitchell.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×