Körfubolti

Tók við MVP-styttunni og skoraði svo 38 stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shai Gilgeous-Alexander með MVP-styttuna sem hann fékk afhenta fyrir leik Oklahoma City Thunder og Minnesota Timberwolves í nótt.
Shai Gilgeous-Alexander með MVP-styttuna sem hann fékk afhenta fyrir leik Oklahoma City Thunder og Minnesota Timberwolves í nótt. getty/Matthew Stockman

Oklahoma City Thunder er komið í 2-0 í einvíginu við Minnesota Timberwolves í úrslitum Vesturdeildar NBA eftir sigur í öðrum leik liðanna í nótt, 118-103.

Fyrir leikinn veitti Shai Gilgeous-Alexander styttunni fyrir að vera valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar (MVP) viðtöku. Hann hélt upp á það með því að skora 38 stig í leiknum.

Gilgeous-Alexander hitti úr tólf af 21 skoti sínu utan af velli og skoraði þrettán stig af vítalínunni. Hann gaf einnig átta stoðsendingar. Jalen Williams skoraði 26 stig og tók tíu fráköst og Chet Holmgren var með 22 stig.

Anthony Edwards skoraði 32 stig fyrir Minnesota, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Jaden McDaniels skoraði 22 stig en Julius Randle, sem hefur leikið svo vel í úrslitakeppninni, var einungis með sex stig og hitti bara úr tveimur af þeim ellefu skotum sem hann reyndi.

Næstu tveir leikir einvígisins fara fram í Minnesota en þar verða Úlfarnir að svara fyrir sig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×