Erlent

Trump sorg­mæddur yfir greiningu Biden

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Donald Trump óskar Joe Biden skjóts bata og segist sorgmæddur yfir krabbameinsgreiningu forsetans fyrrverandi.
Donald Trump óskar Joe Biden skjóts bata og segist sorgmæddur yfir krabbameinsgreiningu forsetans fyrrverandi. EPA

Donald Trump segist sorgmæddur yfir krabbameinsgreiningu Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og sendir hann Biden-fjölskyldunni hlýjar kveðjur.

Trump skrifar kveðjuna til Biden á samfélagsmiðli sínum, Truth Social.

Greint var frá því fyrr í kvöld að Biden hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli á föstudag. Krabbameinið er ágengt og líklegt til að dreifa hratt úr sér samkvæmt greiningum lækna. Biden-fjölskyldan skoðar nú með læknum mögulegar meðferðir við krabbameininu.

„Melania og ég erum sorgmædd að heyra af nýlegri sjúkdómsgreiningu Joe Biden. Við sendum okkar hlýjustu og bestu kveðjur til Jill og fjölskyldunnar og óskum Joe skjóts og góðs bata,“ skrifaði Trump í færslu sinni.

Trump og Biden mættust í kosningum til Bandaríkjaforseta árið 2020 eftir fyrsta kjörtímabil Trump. Biden vann þar nokkuð örugglega en kosningaþátttaka var sú hæsta frá 1900 og Biden hlaut 81 milljón atkvæða sem er það mesta í sögunni. 

Biden hætti síðan við að bjóða sig aftur fram 2024 vegna heilsu sinnar og fór svo að Trump vann öruggan sigur gegn Kamölu Harris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×