Handbolti

„Ég byrjaði bara að gráta, ég réði ekki við neitt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hildigunnur var meyr og stolt eftir leik.
Hildigunnur var meyr og stolt eftir leik. Vísir/Anton Brink

Hildigunnur Einarsdóttir var að spila einn af síðustu handboltaleikjunum á sínum ferli er Valur skráði sig í sögubækurnar með sigri í úrslitaleik EHF-bikarsins. Tilfinningarnar voru eftir því.

„Þetta er náttúrulega bara galið. Ég held það sé ekki hægt að finna lýsingarorð yfir þetta. Við erum bara að skrifa okkur á spjöld sögunnar,“ segir Hildigunnur eftir leik.

Valur vann 25-24 sigur og einvígið samanlagt með einu marki í leik sem varð helst til of spennandi í lokin eftir að Valur hafði verið með öll völd lengi vel. Valskonur eru fyrsta íslenska kvennaliðið til að vinna Evróputitil og hafa gert gríðarvel í keppninni í allan vetur og unnið hvert stórliðið á fætur öðru.

„Þetta er búið að vera svo geðveikt ævintýri og að klára þetta hérna á heimavelli fyrir stútfullum Hlíðarenda. Þetta gæti ekki verið betra,“ segir Hildigunnur.

Hildigunnur var grátbólgin í viðtalinu en hún kveðst hafa farið að gráta strax og lokaflautið gall.

„Ég byrjaði bara að gráta. Ég réði ekki við neitt. Ég var svo meyr og stolt og fegin að þetta sé búið en samt svo gaman að við séum búnar að klára þetta. Þetta er óraunverulegt. Maður fékk gæsahúð í upphitun og þetta er ólýsanlegt,“ segir Hildigunnur.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×