Fótbolti

„Verður stærsti dagur ævi minnar“

Sindri Sverrisson skrifar
Son Heung-Min og félagar í Tottenham hafa átt skelfilega leiktíð í ensku úrvalsdeildinni og eru þar í 17. sæti en samt gæti leiktíðin endað með langþráðum titli og sæti í Meistaradeild Evrópu.
Son Heung-Min og félagar í Tottenham hafa átt skelfilega leiktíð í ensku úrvalsdeildinni og eru þar í 17. sæti en samt gæti leiktíðin endað með langþráðum titli og sæti í Meistaradeild Evrópu. Getty/Michael Steele

Son Heung-min, fyrirliði Tottenham, viðurkennir að tímabilið sé búið að vera lélegt hjá liðinu en það breyti því ekki að hann geti tekið við stórum bikar á miðvikudagskvöld.

Tottenham mætir Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Bilbao næsta miðvikudag.

Liðin hafa bæði átt hreint út sagt hræðilega leiktíð í ensku úrvalsdeildinni og eru þar rétt fyrir ofan fallsætin. Ljóst er að sigurliðið á miðvikudag slær met sem lægst skráða liðið í sinni landsdeild til að vinna Evrópudeildina. Tottenham tapaði 2-0 í gærkvöld gegn Aston Villa.

„Þetta eru svekkjandi úrslit og tímabilið hefur verið mjög lélegt,“ sagði Son við BBC eftir tapið í gærkvöld.

„En þegar allt kemur til alls þá getum við unnið titil og það er það eina sem við erum að hugsa um,“ sagði Son.

Tottenham hefur ekki unnið titil í sautján ár, eða síðan liðið vann deildabikarinn árið 2008, og ekki unnið Evrópukeppni síðan árið 1984. Son, sem er 32 ára, hefur verið lykilmaður hjá Spurs í áratug en bíður enn eftir fyrsta titlinum með liðinu.

„Miðvikudagurinn verður stærsti dagur ævi minnar. Þetta verður frábært. Við verðum spenntir og vonandi skráum við okkur í sögubækurnar,“ sagði Son.

Úrslitaleikur Tottenham og Manchester United er á Vodafone Sport næsta miðvikudag klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×