Innherji

Frið­rik ráðinn í nýtt starf stefnu­mótunar hjá fast­eignafélaginu Eik

Hörður Ægisson skrifar
Friðrik Ársælsson starfaði áður um árabil náið með nýjum forstjóra Eikar hjá Arion banka. 
Friðrik Ársælsson starfaði áður um árabil náið með nýjum forstjóra Eikar hjá Arion banka.  Arion banki

Friðrik Ársælsson, sem hefur stýrt lögfræðiráðgjöf Arion undanfarin ár, er að láta þar af störfum og mun taka við nýju starfi stefnumótunar á skrifstofu forstjóra hjá Eik fasteignafélagi.

Tilkynnt var um ráðninguna á Friðriki í tölvupósti til starfsmanna Eikar fyrr í dag, samkvæmt upplýsingum Innherja, en hann mun þar starfa með nýjum forstjóra félagsins, Hreiðari Má Hermannssyni, en þeir unnu áður náið saman um árabil hjá Arion banka. Friðrik mun hefja störf hjá Eik um næstu mánaðarmót.

Þetta er fyrsta ráðningin á lykilstarfsmanni sem Hreiðar Már tilkynnir um frá því að hann tók við forstjórastarfinu hjá Eik eftir aðalfund fasteignafélagsins í liðnum mánuði. Hreiðar Már, sem hefur víðtæka reynslu af fjárfestinga- og fjármálastarfsemi, var áður forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka.

Hreiðar Már Hermannsson tók við starfi forstjóra í síðasta mánuði. 

Friðrik hefur gegnt starfi forstöðumanns lögfræðiráðgjafar Arion banka, sem heyrir undir sviðið rekstur og menning, frá því að sú staða var fyrst sett á fót árið 2023. Hann hefur starfað í lögfræðirágjöf hjá Arion samfellt undanfarin sex ár, þar áður sem aðstoðaryfirlögfræðingur bankans. Á árunum 2014 til 2019 var Friðrik eig­andi á lög­manns­stof­unni Rétt­ur og sat í stjórn Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á ár­un­um.

Friðrik er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með LLM-gráðu í félaga- og verðbréfamarkaðsrétti frá lagadeild Harvard-háskólans í Bandaríkjunum.

Eik er þriðja stærsta fasteignafélag landsins, skráð í Kauphöllina, og með markaðsvirði upp á liðlega 43 milljarða.


Tengdar fréttir

Stærsti hlut­hafinn segir að leigufélagið Alma verði ekki selt inn í Eik

Langsamlega stærsti fjárfestirinn í Eik, sem er jafnframt eigandi að leigufélaginu Ölmu, segir að engin áform séu uppi um að Alma verði selt inn í hið skráða fasteignafélag. Þá hefur stjórnin ekki tekið neina ákvörðun um hvort Eik muni ráðast í útleigu á íbúðum en á nýlegum aðalfundi var samþykkt að tilgangur félagsins sé meðal annars að standa sjálft að uppbyggingu á slíku húsnæði.

Hreiðar Már ráðinn forstjóri Eikar

Stjórn Eikar fasteignafélags hf. ákvað á fundi sínum í dag að ráða Hreiðar Má Hermannsson í starf forstjóra félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×