Körfubolti

Reynsluboltinn verður ný­liði í Síkinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson í leik með Stjörnunni á móti Tindastól í deildarkeppninni fyrr í vetur
Ægir Þór Steinarsson í leik með Stjörnunni á móti Tindastól í deildarkeppninni fyrr í vetur Vísir/Jón Gautur

Fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfubolta og einn reyndasti körfuboltamaður Íslands í dag verður í hlutverki nýliðans í úrslitaeinvígi Bónus deildar karla í kvöld.

Ægir Þór Steinarsson spilar í kvöld sinn 216. leik á Íslandsmóti og leik númer 29 i úrslitakeppni. Þessi leikur í Síkinu á Sauðárkróki sker sig úr þeim öllum því þetta er í fyrsta sinn sem Ægir tekur þátt í leik í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Ægir var í fyrsta sinni á skýrslu á Íslandsmóti 28. desember 2006 en kom í fyrsta sinn inn á gólfið í leik Fjölnis á móti Stjörnunni 10. janúar 2008. Síðan eru liðin sautján ár, þrír mánuðir og 28 dagar.

Fyrstu fimm tímabilin spilaði Ægir með uppeldsliði sínu Fjölni en tókst þá aldrei að komast í úrslitakeppnina.

Hann kom heim í hálft tímabil með KR 2015-16 en var farinn aftur út í atvinnumennsku áður en úrslitakeppnin hófst.

Ægir spilaði því ekki sinn fyrsta leik í úrslitakeppni fyrr en 21. mars 2019 þá með Stjörnunni eftir að hann kom í annað skiptið heim úr atvinnumennsku.

Þetta er fimmta tímabil Ægis með Stjörnunni. Hann hefur þrisvar sinnum komist í undanúrslitin (með árinu í ár), einu sinni fór engin úrslitakeppni fram vegna kórónuveirufaraldursins og í fyrra komst Stjarnan ekki í úrslitakeppnina.

Nú er biðin loksins á enda. Hún hefur ekki aðeins verið löng fyrir Ægi heldur einnig fyrir Stjörnumenn sem hafa ekki spilað á þessu sviði síðan í lok apríl 2013 eða í meira en tólf ár.

Fyrsti leikur Tindastóls og Stjörnunnar í úrslitaeinvígi Bónus deildar karla verður að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.30 en leikurinn sjálfur klukkan 20.15. Eftir leikinn um Bónus Körfuboltakvöld gera upp kvöldið.

  • Leikir Ægirs Þórs Steinarssonar á Íslandsmóti karla í körfubolta:
  • Leikir á Íslandsmoti: 215
  • Leikir í deildarkeppni: 187
  • Leikir í úrslitakeppni: 28
  • Leikir í átta liða úrslitum: 13
  • Leikir í undanúrslitum: 15
  • Leikir í lokalokaúrslitum: 0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×