Fótbolti

Williams bræður ekki til Manchester

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nico og Inaki Williams verður hvorugur með á Old Trafford.
Nico og Inaki Williams verður hvorugur með á Old Trafford. Jay Barratt - AMA/Getty Images

Athletic Bilbao verður án sterkra pósta þegar liðið sækir Manchester United heim í síðari leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á Old Trafford annað kvöld. United leiðir einvígið 3-0.

Leikmenn Manchester United hafa fyrir töluverðu síðan sett öll sín egg í sömu körfuna. Enska úrvalsdeildin er aukaatriði og allt kapp er lagt á Evrópudeildina. Sigur þar mun skila sæti í Meistaradeild Evrópu að ári, sama hversu neðarlega liðið endar í deildinni.

Rúben Amorim, þjálfari liðsins, hvíldi fjölmarga leikmenn í 4-3 tapi fyrir Brentford í deildinni um helgina og mun stilla upp sínu sterkasta liði annað kvöld. Manchester United stendur vel að vígi eftir 3-0 sigur í Baskalandi fyrir tæpri viku síðan.

Athletic Bilbao mætir aftur á móti með vængbrotið lið til leiks. Bræðurnir Inaki og Nico Williams, sem eru helstu sóknarógnir Baskaliðsins, eru hvergi sjáanlegir í leikmannahópi liðsins sem heldur til Manchester í dag. Þá er Oihan Sanchet, lykilmaður á miðju liðsins, einnig fjarverandi.

Nico, sá yngri, missti af grannaslag helgarinnar við Real Sociedad á meðan Inaki var skipt af velli eftir rúman klukkutíma. Hvorugur er klár í slaginn á morgun og verða þeir eftir í Bilbao.

Ljóst er að brekkan verður þannig enn brattari fyrir lið Athletic sem vonast eftir því að geta spilað úrslitaleik keppninnar á heimavelli, en úrslitaleikurinn fer fram á San Mamés-vellinum í Bilbao þann 21. maí.

Sigurlið einvígisins mætir annað hvort Tottenham Hotspur eða Bodö/Glimt frá Noregi í úrslitum. Tottenham leiðir 3-1 fyrir leik morgundagsins í Noregi og er útlit fyrir enskan úrslitaleik.

Leikur Manchester United og Athletic Bilbao er klukkan 19:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×