Leik lokið: Aftur­elding - Stjarnan 3-0 | Ný­liðarnir öflugir á heima­velli

Hinrik Wöhler skrifar
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/Diego

Afturelding sigraði Stjörnuna sannfærandi í Bestu-deild karla í Mosfellsbæ í kvöld. Mosfellingar léku við hvern sinn fingur og sigruðu Garðbæinga 3-0.

Mosfellingar voru ekki lengi að brjóta ísinn en strax á 9. mínútu átti Elmar Kári Cogic stórbrotinn sprett upp miðjan völlinn og fór framhjá hverjum leikmanni Stjörnunnar á fætur öðrum.

Elmar Kári lagði boltann á Hrannar Snæ Magnússon sem var á auðum sjó á vinstri vængnum. Sá síðarnefndi keyrði inn á vítateiginn og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið af stuttu færi.

Leikurinn róaðist eftir fyrsta markið og bæði lið áttu ágætis sóknir og uppspil, þó án þess að skapa verulega hættu.

Gestirnir fengu þó nokkur föst leikatriði á vallarhelming Mosfellinga en lítið kom út úr spyrnum Garðbæinga. Varnarmúr heimamanna stóð þéttur fyrir.

Þegar leið á fyrri hálfleik bjargaði Axel Óskar Andrésson, miðvörður Aftureldingar, á marklínu eftir darraðardans í vítateig Mosfellinga en skot Benedikts Warén var á leið í bláhornið en miðvörðurinn kom Aftureldingu til bjargar.

Emil Atlason, framherji Stjörnunnar, náði að koma boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks en var dæmdur brotlegur eftir að hafa stjakað við Gunnari Bergmanni Sigmarssyni skömmu áður.

Mosfellingar leiddu með einu marki gegn engu þegar leikmenn gengu til búningsherbergja.

Heimamenn voru hvergi nærri hættir og bættu við marki á 56. mínútu. Georg Bjarnason skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir að boltinn datt til hans eftir klafs í vítateig Stjörnunnar.

Axel Óskar Andrésson náði að renna boltanum þvert fyrir markið og þar náði Georg að renna boltanum í netið af stuttu færi.

Afturelding gerði út um leikinn með þriðja markinu á 64. mínútu eftir góða skyndisókn. Hrannar Snær Magnússon þaut upp vintri kantinn og gaf lága sendingu inn í vítateiginn. Þar var Aron Jóhannsson mættur á siglingunni og smellhitti boltann í fjærhornið.

Stjarnan pressaði ofar sem eftir lifði leiks en náði ekki að brjóta niður vörn Mosfellinga. Leikurinn fjaraði út og gátu heimamenn fagnað verðskulduðum sigri í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira