Sport

Leo vann brons í Sví­þjóð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leo Anthony Speight með bronsverðlaunin sín.
Leo Anthony Speight með bronsverðlaunin sín. taekwondo samband íslands

Þrír Íslendingar tóku þátt á Swedish Open, sterku alþjóðlegu stigamóti í ólympísku taekwondo. Leo Anthony Speight vann brons í sínum flokki.

Auk Leos kepptu Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Guðmundur Flóki Sigurjónsson fyrir hönd Íslands á mótinu. Alls tóku um sex hundruð keppendur þátt á því.

Leo komst í undanúrslit í -68 kg flokki en laut þar í lægra haldi fyrir serbneskum keppanda. Hann fékk samt brons og hefur því unnið sex verðlaun síðasta árið.

Ingibjörg Erla keppti í -62 kg flokki, komst í átta kvenna úrslit og endaði í 5. sæti.

Sömu sögu var að segja af Guðmundi Flóka í -80 kg flokki. Þetta var annað mót hans í fullorðinsflokki en hann er enn gjaldgengur í unglingaflokk.

Íslensku keppendurnir Guðmundur Flóki Sigurjónsson, Leo og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir ásamt landsliðsþjálfaranum Richard Fairhurst.taekwondo samband íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×