Erlent

Var svo „þreyttur á öllu“ að hann á­kvað að aka inn í þvögu barna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Maðurinn hefur verið handtekinn.
Maðurinn hefur verið handtekinn. Getty

Maður hefur verið handtekinn í Ósaka í Japan grunaður um að hafa ekið bíl sínum í þvögu barna á leið sinni heim úr skólanum.

Ríkisútvarp Japans greinir frá því að um hálf tvö í dag að staðartíma hafi maðurinn viljandi ekið bíl sínum í þvögu barna á heimleið á rólegri íbúðargötu. Sjö ára stúlka braut á sér kjálkann og mörg börn særðust lítillega. Greint er frá því að þau hafi öll verið með meðvitund þegar þau voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Samkvæmt umfjöllun Guardian heitir sá handtekni Yuki Yazawa. Hann er 28 ára gamall, atvinnulaus og kemur úr Higashimurayama-hverfi Tókíóborgar. Enn liggur ekki fyrir á hvaða erindi hann var í Ósaka sem er um sex klukkustunda akstursfjarlægð frá Tókíó.

Kennarar í grunnskólanum brugðust skjótt við og drógu Yuki úr bílnum en þar sat hann aðgerðalaus eftir árásina.

„Ég var bara svo þreyttur á öllu að ég ákvað að keyra á grunnskólakrakkana til að drepa þá,“ hefur japanska ríkisútvarpið eftir árásarmanninum en þetta á hann að hafa sagt við lögreglumenn á vettvangi.

Sjónarvottur segir einnig að hann hafi gert tilraun til að bakka bílnum yfir börnin eftir að hann hafði ekið í þvöguna. Hann hafi einnig ekið óreglulega og var greinilega í geðshræringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×