Lífið

Með höfuðið rétt skrúfað á og gleyma aldrei hjálminum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Benedikt Benediktsson, Anton Örn Arnarson og Magnús Bjarki Þórlindsson hjólakappar mynda teymið BMX brós.
Benedikt Benediktsson, Anton Örn Arnarson og Magnús Bjarki Þórlindsson hjólakappar mynda teymið BMX brós. Aðsend

„Síðustu tíu ár hafa verið ótrúlega skemmtileg hjá okkur. Við erum búnir að vera að byggja þetta hægt og rólega upp frá því við kláruðum Ísland got talent,“ segir Benedikt Benediktsson hjólakappi sem myndar teymið BMX brós ásamt Antoni Erni Arnarsyni og Magnúsi Bjarka Þórlindssyni.

BMX brós samanstendur af Benedikt, Antoni og Magnúsi sem eru æskuvinir, þrátt fyrir að margir haldi að Benni og Magnús séu tvíburar. Benedikt og Magnús byrjuðu með BMX brós og skutust upp á stjörnuhimininn þegar þeir tóku þátt í hæfileikakeppninni og sjónvarpsseríunni Ísland Got Talent þar sem þeir höfnuðu öðru sæti. 

Þeir fengu mikla athygli og ýmsar fyrirspurnir í kjölfarið og bættist Anton, sem strákarnir kalla gjarnan Krulli, fljótlega við teymið.

Hér má sjá klippu af strákunum á úrslitakvöldi Ísland got talent 2015: 

Skemmtilegra að hjóla á fótboltaæfingu

„Við vorum allir duglegir að prófa hinar ýmsu íþróttir þegar við vorum yngri. Einhvern veginn áttu hjólin okkur alltaf, hvort sem það ar fjallahjól, mótorkross eða BMX. Ég var að æfa fótbolta en mér fannst alltaf skemmtilegra að hjóla á fótboltaæfinguna heldur en æfingin sjálf,“ segir Benedikt og brosir.

Nú eru tíu ár frá upphafinu og ætla þeir að fagna áratugnum með stæl 10. maí næstkomandi í Hekluhöllinni í Garðabæ.

„Okkur langar að fagna þessu almennilega með alvöru kraftmikilli BMX sýningu. Á þessum tíu árum höfum við masterað hvernig góð sýning á að vera og stökkin hafa aldrei verið eins stór og hættuleg og skemmtunin aldrei jafn mikil.“

Strákarnir byrjuðu allir ferilinn á fjallahjóli áður en þeir stigu sín fyrstu skref á BMX.

„Þá vorum við að taka þátt í fjallabruni og allt snerist um hver var með stærstu demparana og flestu gírana. Svo einhvern veginn breyttist tíðarandinn, eldri strákarnir fóru að hjóla á BMX hjólum og við eltum bara.

Áður en við vissum af voru allir komnir á BMX hjól og það var nýjasta æðið í kringum árið 2007. Það er allt önnur pæling á bak við BMX hjólin, þau þurfa að vera sterkbyggð og létt á sama tíma og það þarf að vera sem minnst sem getur skemmst á þeim. 

Það eru til dæmis engir demparar, gírar og oftast ekki bremsur,“ segir Benni en þarna voru hann og Magnús tólf ára og Anton sextán ára.

Markaður fyrir BMX brós

Síðastliðin tíu ár hafa sannarlega verið viðburðarík hjá strákunum.

„Eftir að keppninni lauk árið 2015 fór okkur að berast fjöldinn allur af fyrirspurnum frá hátíðum, skólum og fyrirtækjum um það hvort við gætum komið og verið með sýningu fyrir þau. 

Þarna áttuðum við okkur á því að það væri áhugi og markaður fyrir því að mæta og vera með sýningar og hjólanámskeið fyrir hátíðir.“

Frá því þeir byrjuðu hafa sýningar þeirra breyst heilmikið.

„Við höfum lært hvernig á að ná til áhorfenda, hvernig við þurfum að blanda húmor og áhættu í sýninguna og hvernig hið fullkomna atriði á að vera. 

Á hverju einasta ári leggjum við höfuðið í bleyti og reynum að bæta við einhverju nýju, hvort sem það eru einhver stökk eða einhverjar fyndnar viðbætur eins og hárkollur, punghlífar eða heimsins minnstu pallar og hjól.

Við getum allir verið sammála um það að síðasti áratugir hafi verið hreint og beint ævintýri. Það er svo gaman að fá að vinna við það sem við elskum á sumrin, ferðast um allt land og kynnast aragrúa af frábæru fólki í leiðinni. 

Við finnum allir fyrir því í lok vetrar að við iðum í skinninu eftir að byrja að gigga aftur og keyra BMX sumrin á fullt.“

Miklir talsmenn hjálmsins

Með óteljandi gigg á bakinu er erfitt að velja hvað stendur upp úr.

„Við höfum verið upp á sviði á Fiskideginum mikla með atriði fyrir framan tuttugu þúsund manns þar sem ég var í hjólastól og strákarnir stukku yfir mig á hjólunum. 

Við höfum fengið að lýsa Ólympíuleikunum í BMX hjá RÚV, verið með okkar eigin rétt á matseðli hjá Serrano, unnið saman í því að kaupa fasteignir og gera þær upp, vera með í Julevenner Emmsjé Gauta og mögulega verið ástæðan fyrir því að fjöldinn allur af krökkum notar hjálm á hausinn þegar þau hjóla,“ segir Benedikt og ítrekar að strákarnir hafi alla tíð lagt mikla áherslu á mikilvægi hjálmsins.

„Ef við ættum að velja eitthvað eitt er það örugglega bara að vera þrír saman með pallana í eftirdragi að keyra einhvers staðar út á landi eftir geggjaða sýningu, með kaffibolla og aulahúmor á leiðinni að gista einhvers staðar í húsbíl eða á sófanum í félagsheimili. Við dýrkum það.“

Allir lent í því að slasa sig

Þeir segja að Covid tímabilið hafi svo verið mest krefjandi á ferlinum hingað til.

„Árin 2020 og 2021 fuðruðu öll giggin okkar upp á einu bretti tvö ár í röð út af samkomutakmörkunum en svo má líka nefna að það er auðvitað krefjandi þegar við slösum okkur.

Við höfum allir lent í því að brjóta okkur, slíta eitthvað eða slasa okkur á einn eða annan hátt og getur það tekið mikið á sérstaklega ef það er í kringum sýningatímabilið.“

Strákarnir leggja mikið upp úr því að hugsa vel um sig á sýningartímabilinu og þurfa að undirbúa sig vandlega.

„Sýningarnar eru yfirleitt á sumartímanum, hefjast í apríl og klárast í september. Á þeim tíma hjólum við rosalega mikið og erum kannski að sýna á sextíu til sjötíu stöðum á einu sumri. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að vera í góðu formi. 

Við Maggi erum duglegir að mæta í ræktina, ég er í Mjölni í Víkingaþrekinu en Maggi æfir Crossfit á Selfossi. Anton Krulli er síðan duglegur að brimbretta og sprikla.“

@bmx_bros_island Þetta var skemmtileg helgi, takk allir sem komu og tóku þátt #BMXBRÓS ♬ original sound - BMX BRÓS

Í grunninn eru strákarnir því allt árið um kring að undirbúa sig. 

Við gerum það með því halda okkur í standi í líkamsrækt en svo erum við líka að þjálfa allan veturinn í Brettafélagi Hafnarfjarðar og þar höldum við hjólahæfileikunum við.

Þegar kemur að sjálfum sýningardeginum þá erum við pössum við allir vel upp á að ná góðum svefni enda ómögulegt að fara í heljarstökk, stökkva yfir tuttugu krakka og tala í míkrófón í þrjátíu mínútur eftir lítinn svefn. Þannig svefn er mjög mikilvægur fyrir okkur. Það gengur þó ekki alltaf þegar við erum kannski að keyra alla nóttina á næsta gigg sem í sumum tilfellum er hinum megin á landinu.

Síðan er það næringin og við erum svo lukkulegir að vera styrktir af fullkomnum fyrirtækjum þegar kemur að heilbrigði. Fyrir okkur er gríðarlega mikilvægt að borða og drekka vel í kringum sýningar.“

Gríðarlega andlegt sport

Fyrir sýningu taka þeir svo léttar teygjur, armbeygjur og nokkra hringi á hjólinu.

„Þá erum við tilbúnir. Svo þegar við heyrum peppið í áhorfendunum dettum við einfaldlega bara í gírinn og þetta verður fyrir okkur eins og að drekka vatn, eða Gatorade,“ segir Benedikt kíminn.

Það þarf sannarlega að vera kaldur til að kýla á áhættuatriðin sem fylgja sýningum félaganna. Benedikt segir sömuleiðis að það sé alltaf vinna að halda hausnum í góðum fíling.

Benedikt segir að sportið sé mjög andlegt og krefjist þjálfunar fyrir hausinn líka.Aðsend

„Sportið sjálft er gríðarlega andlegt og ég held að það fylgi flestum jaðarsportum þar sem maður þarf að þora að taka sénsa og hætta sér í eitthvað erfitt.

Það er oft á tíðum sem maður stendur frammi fyrir einhverju stökki eða trikki og maður veit alveg að maður getur það líkamlega en maður fær bara hausinn ekki til að leggja af stað. Svoleiðis aðstæður krefjast andlegs styrks svo maður geti sigrast á stökkinu. 

Stundum sigrar maður hausinn og stundum ekki. En það er bara partur af sportinu.

Með árunum höfum við allir orðið mjög góðir í að sigrast á þessum augnablikum ef við vitum að við getum gert stökkið. Svo er það einhvern veginn þannig að maður slasast yfirleitt þegar maður er að gera eitthvað núll hættulegt og býst minnst við því. Það hefur allavega verið staðan hjá okkur í gegnum tíðina.“

@bmx_bros_island #BMXBRÓS ♬ Bad Bih 4 Ya - GloRilla

Strákarnir stefna langt með þetta ævintýri og hlakka mikið til að setja upp afmælissýninguna en nánari upplýsingar um það má finna hér.

„Okkur langar alla að halda áfram að sýna eins lengi og við getum það líkamlega og eins lengi og fólk nennir að horfa á BMX BRÓS sýningar. Þetta er allavega það sem okkur finnst skemmtilegast.“

Þeir segjast að sama skapi ætla að halda áfram saman í rekstri um ókomna tíð eftir að BMX brós hætta að sýna.

„Við erum byrjaðir að undirbúa þann kafla þegar að honum kemur með því að fjárfesta saman í fasteignum sem við gerum síðan upp. Planið er að halda því áfram.

Að sama skapi erum við allir staðráðnir í því að vera áfram duglegir að miðla góðum boðskap til krakka á öllum aldri hvort sem það tengist hreyfingu, svefni, matarvenjum eða hjálminum. Síðast en ekki síst langar okkur svo bara að halda áfram að hafa gaman af lífinu í góðu formi og með hausinn skrúfaðan rétt á,“ segir Benedikt brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.