Erlent

Ungur maður hand­tekinn vegna morðanna í Upp­sölum

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um árásina inni á rakarastofu við Vaksala torg í Uppsölum skömmu eftir klukkan 17 að staðartíma í gær.
Tilkynnt var um árásina inni á rakarastofu við Vaksala torg í Uppsölum skömmu eftir klukkan 17 að staðartíma í gær. AP

Lögregla í Uppsölum í Svíþjóð hefur handtekið ungan mann sem grunaður er um að tengjast skotárásinni í gær þar sem þrír ungir menn voru myrtir.

Sænskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun, en árásarmaðurinn flúði af vettvangi á rafhlaupahjóli og stóð yfir umfangsmikil leit að honum í gærkvöldi og í nótt.

Tilkynnt var um árásina inni á rakarastofu við Vaksala torg í Uppsölum skömmu eftir klukkan 17 að staðartíma í gær. Þrír einstaklingar á aldrinum fimmtán til tuttugu ára höfðu þar verið skotnir til bana.

Aftonbladet greinir frá því að maður hafið komið hlaupandi inn á rakarastofuna eftir að hafa verið eltur af grímuklæddum manni og hafi í kjölfarið skothríð hafist inni á rakarastofunni. Tveir hinna látnu eru sagðir hafa verið í rakarastólum þegar þeir voru skotnir.

SVT hefur eftir heimildum að handtekni sé yngri en átján ára. Þá er haft eftir lögreglu að enn eigi eftir að yfirheyra einhverja vegna málsins og að ekki sé hægt að veita miklar upplýsingar um málið að svo stöddu.

Einn hinna látnu hefur að sögn SVT áður komið við sögu lögreglunnar í tengslum við rannsókn á árás sem beindist gegn fjölskyldumeðlim glæpaforingjans Ismail Abdo. Ekki liggur þó fyrir hvort að sú árás tengist árás gærdagsins.


Tengdar fréttir

Árásarmannsins enn leitað

Lögreglan í Uppsölum í Svíþjóð leitar enn árásarmanns sem er grunaður um skotárás við hárgreiðslustofu í miðbæ borgarinnar í dag. Að minnsta kosti þrír létu lífið.

Þrír látnir eftir skotárás í Uppsölum

Þrír eru látnir eftir skotárás nálægt Vaksala-torgi í Uppsölum í Svíþjóð. Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur yfir og málið er rannsakað sem morð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×