Körfubolti

„Bara einn leikur og á­fram með smjörið“

Siggeir Ævarsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson átti stórleik í kvöld en er ennþá með báða fætur á jörðinni
Ægir Þór Steinarsson átti stórleik í kvöld en er ennþá með báða fætur á jörðinni Vísir/Pawel

Ægir Þór Steinarsson átti sannkallaðan stórleik þegar Stjarnan lagði Grindavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar karla 108-100. Hann var mættur í viðtal við Andra Más Eggertssonar strax eftir leik.

Ægir var beðinn um að segja aðeins frá sínum leik í kvöld sem skilaði 29 stigum og 13 stoðsendingum.

„Bara í einhverju flæði, skilurðu? Við náðum aðeins að hraða upp leikinn sem við höfum ekki náð að gera í úrslitakeppninni. Úr því varð bara fínn sóknarleikur á köflum. En þetta er ekkert meira en bara einn leikur og áfram með smjörið sko.“

Ægir átti á köflum frekar greiða leið í gegnum vörn Grindavíkur og sagði að það hefði í raun komið honum aðeins á óvart en lagði jafnframt áherslu á að hans menn þyrftu að spila betri varnarleik.

„Maður reynir að vera „agressífur“ þegar maður getur það og vera bara í jafnvægi að finna leikmenn. Við getum gert betur í vörn. Mér fannst það kannski vera einhver fókus, við bara stöldrum við það.“

Stjarnan náði upp smá forskoti fyrir fjórða leikhlutann en Grindvíkingar voru hársbreidd frá því að snúa leiknum við þegar Ólafur Ólafsson minnkaði muninn í tvö stig.

„Svo ertu bara að keppa á móti Grindavík og Óli Óli setur fjóra þrista í röð, þá er þetta allt í einu orðinn jafn leikur. Við vissum að þú þarft að vera með fókus í 40 mínútur, ef þú getur það ekki þá taparðu á móti Grindavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×