Innlent

Einn í haldi lög­reglu vegna konu með skerta með­vitund

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hinn handtekni tengist konunni fjölskylduböndum.
Hinn handtekni tengist konunni fjölskylduböndum. Vísir/Vilhelm

Einn er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi eftir að tilkynning barst um konu með skerta meðvitund í heimahúsi í nágrenni við Selfoss. Maðurinn sem tilkynnti um áverka hennar var handtekinn og tengist henni fjölskylduböndum.

Maðurinn tilkynnti um áverka konunnar á ellefta tímanum í morgun en hún var flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á sjúkrahúsi. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hennar.

Hinn handtekni og konan voru tvö í húsinu þegar lögreglu bar að garði. 

Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að til skoðunar sé hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Því hafi tilkynnandinn verið handtekinn á staðnum, til þess að varpa ljósi á málið, án þess að lögregla vilji slá því föstu að grunur leiki á um saknæma háttsemi. Skýrsla verður tekin af honum síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×