Innlent

Lög­reglan komin á vett­vang þegar í ljós kom að bíllinn var rétt hjá

Jón Þór Stefánsson skrifar
Eigandinn gleymdi hvar hann lagði bílnum og hann var rétt hjá eftir allt saman. Myndin er úr safni.
Eigandinn gleymdi hvar hann lagði bílnum og hann var rétt hjá eftir allt saman. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöldi eða nótt tilkynnt um stolinn bíl. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við eiganda bílsins, þann sem tilkynnti stuldinn, en þá kom í ljós að hann hafði gleymt því hvar hann hafði lagt bílnum. Hann var í raun rétt hjá.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en umrætt atvik átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sér um verkefni í Kópavogi og Breiðholti.

Í sama umdæmi var maður handtekinn vegna gruns um líkamsárás í verslun. Sá var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um eld í bíl í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sér um löggæslu í Árbæ, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Grafarvogi, Grafarholti, og Kjalarnesi. Lögreglan fór á vettvang ásamt slökkviliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×