Upp­gjörið: Fram - ÍA 0-1 | Stór­glæsi­legt mark Rúnars Más tryggði Skaga­mönnum sigurinn gegn Fram

Hjörvar Ólafsson skrifar
Viktor Jónsson lék í fremstu víglínu hjá Skagamönnum. 
Viktor Jónsson lék í fremstu víglínu hjá Skagamönnum.  vísir/Anton

Skagamenn fara vel af stað í Bestu-deild karla en liðið lagði Fram að velli með einu marki gegn engu í leik liðanna í fyrstu umferð deildarinnar á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í kvöld. 

Það var Rúnar Már Sigurjónsson sem gerði gæfumuninn fyrir Skagaliðið að þessu sinni.

Eftir nokkuð lokaðan fyrsta hálftímann tæpan í leiknum dró síðan til tíðinda á 26. mínútu leiksins. Skagamenn fengu þá aukaspyrnu rétt fyrir aftan D-bogann og Rúnar Már Sigurjónsson mundaði skotfót sinn. Rúnar Már sýndi skottækni sína þegar hann smurði boltann laglega upp í samskeytin.

Hætta skapaðist helst upp við mark Frammara eftir fyrirgjafir Johannes Vall og Fram fékk sín bestu færi eftir spretti frá Vuk Óskari Dimitrijevic. Hvorugt liðið skapaði sér opið marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og Skagamenn leiddu með einu marki gegn engu þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Skagamúrinn molnaði ekki 

Frammarar voru meira með boltann í seinni hálfleik og freistuðu þess að finna glufur á varnarmúr gestanna. Það gekk frekar brösuglega en Guðmundur Magnússon fékk besta færi Frammara skömmu eftir að hafa komið inná sem varamaður. 

Árni Marínó Einarsson kom í veg fyrir að Guðmundur næði að jafna metin en hann greip vel inn í á öðrum tímapunktum í leiknum. Árni Marínó varði svo frábærlega þegar Már Ægisson bankaði á dyrnar um það bil fimm mínútum fyrir leikslok. 

Leikurinn fjaraði út án þess að Frammarar næðu að finna jöfnunarmark og Skgamenn fara í Hvalfjarðargöngin með þrjú stig í farteskinu. Steinar Þorsteinsson fékk besta færi Skagaliðsins til þess að bæta við marki í seinni hálfleik.  

Bæði lið spiluðu leikkerfið 3-4-3 í þessum leik og spegluðu hvort annað. Liðin eru vel drilluð í þessu kerfi og spila agaðan og þéttan varnarleik. Af þeim sökum litu fá opin færi kvöldsins ljós þegar þessi lið leiddu saman hesta sína. 

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, á hliðarlínunni. Vísir/Viktor Freyr

Rúnar: Fengum færi til þess að jafna metin

„Ég er svekktur með að tapa þessum leik. Skagamenn voru einfaldlega grimmari í sínum aðgerðum í þessum leik og höfðu þar af leiðandi sigur. Við vildum fá meira út úr þessum leik en náðum ekki að nýta þau færi sem við fengum. Því fór sem fór,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, vonsvikinn. 

„Vindurinn setti svolítið strik í reikninginn hjá báðum liðum fannst mér. Við vorum með vindinn í fangið í fyrri hálfleik og þorðum ekki að spila á milli línanna og náðum ekki miklum takti í spilið. Þetta snérist svo við í seinni hálfleik þar sem Skagamann fóru að spila löngum boltum,“ sagði Rúnar enn fremur. 

„Við vorum betri í seinni hálfleiknum en þeim fyrri og sköpum þar nógu mörg færi til þess að fá allavega eitt stig. Við vorum hins vegar ekki nógu skilvirkir og förum því tómhentir úr þessum leik sem er vonbrigði,“ sagði hann. 

Dean Martin: Erfitt að ráða við vindinn

„Við erum mjög sáttir við sigurinn. Það var meiri vindur en við bjuggumst við og það hafði töluverð áhrif á það hvernig leikurinn spilaðist. Við erum ekki vanir svona miklum vindi uppi á Akranesi. Það er nánast alltaf logn þar. 

Þetta var meiri barátta og návígi og ekki mikið um góða spilkafla. Við vorum öflugir og gáfum fá færi á okkur sem var gott,“ sagði Dean Edward Martin sem var í brúnni hjá Skagamönnum í fjarveru Jóns Þór Hauksson sem tók út leikbann í þessum leik. 

„Við getum tekið ýmislegt jákvætt úr þessum leik fyrir utan að næla í stigin þrjú. Við sýndum á köflum fínustu frammistöðu og holningin á liðinu var góð. Færslan í vörninni var góð og við vorum bæði duglegir og agaðir í okkar aðgerðum,“ sagði Deano stoltur af liði sínu. 

Dean Martin í leik með Skagamönnum á sínum tíma. Mynd/Daníel

Atvik leiksins

Það voru tilþrif Rúnars Más sem glöddu augað mest í frekar bragðdaufum og lokuðum leik. Rúnar Már sem var að glíma við meiðsli lungann úr síðasta sumri sýndi það í kvöld að hann kemur til leiks í flottu standi. 

Stjörnur og skúrkar

Johannes Vall var að vanda með áætlunarferðir upp vinstri vænginn og skapaði trekk í trekk usla með fyrirgjöfum sínum eftir. Jón Gísli Eyland Gíslason, kollegi Vall hægra megin, skapaði einnig nokkur færi fyrir samherja sína með sendingu sínum utan af kanti.

Vuk Óskar Dimitrijevic átti sömuleiðis góða spretti upp vinstri kantinn hjá Fram og var hættulegur í aðgerðum sínum.

Rúnar Már var öflugur inni á miðsvæðinu hjá Skagamönnum og skoraði markið stórglæsilega sem skildi liðin að þegar upp var staðið.

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins Twana Khalid Ahmed og aðstoðarmenn hans þeir Þórður Arnar Árnason, Bergur Daði Ágústsson og Gunnar Freyr Róbertsson stóðu sig bara heilt yfir nokkuð vel og fá þeir félagar sjö í einkunn fyrir störf sín. 

Stemming og umgjörð

Það var fínasta mæting á Lambhagavöllinn í kvöld og bæði lið fengu fínan stuðning úr stúkunni. Allt upp á tíu hjá Frömmurum eins og vanalega. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira