Fram kemur í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu danska að með heimsókninni sé ætlað að styrkja samheldni þjóðanna tveggja en líkt og kunnugt er hefur Grænland verið fyrirferðamikið í fréttum nýverið og ekki að þeirra óskum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað heitið því að innlima landið og í gær fór J.D. Vance varaforseti óboðinn í heimsókn á bandarísku heimskautaherstöðina í Pituffik.
Í dag mótmæltu fleiri hundruð Dana fyrir utan bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn. Mótmælendur báru skilti sem á stóð „Grænland ekki til sölu“ og „Haldið ykkur fjarri, BNA“ meðal annars.
Nýr landstjórnarformaður sagði það að hann kæmi í opinbera heimsókn áður en að tækist að mynda stjórn í landinu bera vott um virðingarleysi. Ný landstjórn var mynduð af fjórum fimm flokka á grænlenska þinginu í gær.
„Ég hlakka til að halda áfram þéttu og traustu sambandi Grænlands og Danmerkur saman með Jens-Frederik Nielsen og öðrum ráðherrum. Á Grænlandi er nýyfirstaðið gott lýðræðislegt ferli og breið samsteypustjórn hefur verið mynduð. Það er mér mikilvægt að koma í heimsókn eins fljótt og ég get og heilsa upp á nýjan landstjórnarformann,“ er haft eftir Mette Frederiksen.
„Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig grænlenska þjóðin og grænlenskir stjórnmálamenn hafa glímt við það mikla álag sem er á Grænlandi. Sú staða sem uppi er kallar á samheldni þvert á stjórnmálaflokka. Þvert á lönd ríkjasamstarfsins. Og á samstarf með virðingu og jafnræði að leiðarljósi,“ segir hún.
Hún mun fara á fund fleiri ráðherra nýrrar ríkisstjórnarinnar frá þriðjudeginum öðrum apríl og til föstudagsins fjórða.