Íslenski boltinn

Ísa­bella Sara sögð á leið til Rosengård

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísabella Sara Tryggvadóttir í leik með Val.
Ísabella Sara Tryggvadóttir í leik með Val. Vísir/Vilhelm

Ísabella Sara Tryggvadóttir, leikmaður Vals í Bestu deild kvenna, er að ganga til liðs við Svíþjóðarmeistara Rosengård. Valur vill fá Úlfu Dís Kreye til að fylla skarð Ísabellu Söru.

Þetta herma heimildir Fótbolti.net. Ljóst er að um mikið högg er að ræða fyrir Valskonur sem ætla sér án efa að sækja Íslandsmeistaratitilinn til baka á Hlíðarenda eftir að hafa misst hann upp í Kópavog síðasta haust.

Hin 18 ára gamla Ísabella Sara gekk í raðir Vals árið 2023 frá uppeldisfélagi sínu KR. Hún varð Íslandsmeistari með Val sama ár. Á síðasta tímabili varð hún bikarmeistari en Valur varð að sætta sig við silfur á Íslandsmótinu eftir harða baráttu við Breiðablik.

Hin sóknarþenkjandi Ísabella Sara skoraði sex mörk á síðasta tímabili og færir sig nú til ríkjandi Svíþjóðarmeistara. Þar hittir hún fyrir landsliðskonuna Guðrúnu Arnarsdóttur.

Alls hefur Ísabella Sara spilað 43 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Þar af tvo fyrir U-23 ára landsliðið þrátt fyrir ungan aldur.

Fótbolti.net greinir einni frá að Valur stefni á að sækja Úlfu Dís frá Stjörnunni. Hún skoraði sjö mörk í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

Úlfa Dís og stöllur í Stjörnunni fagna marki.Vísir/Hulda Margrét



Fleiri fréttir

Sjá meira


×