Erlent

Í­huguðu að leyfa páfa að deyja í friði

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi við glugga Gemelli-sjúkrahússins í Róm áður en hann sneri heim í Páfagarð á sunnudaginn.
Frans páfi við glugga Gemelli-sjúkrahússins í Róm áður en hann sneri heim í Páfagarð á sunnudaginn. AP/Riccardo De Luca

Frans páfi var svo nálægt því að fara yfir móðuna miklu í veikindum sínum að læknar hans íhuguðu að hætta meðferð svo hann gæti fengið friðsamlegt andlát. Páfi sneri aftur í Páfagarð eftir hátt í sex vikna sjúkrahúsdvöl á sunnudaginn.

Sergio Alfieri, læknir á Gemelli-sjúkrahúsinu í Róm, segir að veruleg hætta hefði verið á að Frans léti lífið þegar hann átti erfitt með að ná andanum í lok febrúar. Páfi var fluttur á sjúkrahúsið vegna öndunarfærasýkingar 14. febrúar.

„Við þurftum að ákveða hvort við létum staðar numið þar og leyfðum honum að fara eða halda áfram og reyna öll lyf og meðferðir í boði með mestu hættunni á að skemma önnur líffæri hans,“ segir Alfieri í viðtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera í dag.

Kafnaði næstum á eigin ælu

Páfi var upphaflega lagður inn með berkjubólgu en fékk síðan lungnabólgu í bæði lungu. Páfagarður birti reglulegar fregnir af heilsu páfa, meðal annars alvarlegum hóstaköstum vegna þrenginga í öndunarvegi hans.

Alfieri segir að páfi hafi verið hætt kominn í tveimur slíkum köstum. Hann hafi meðal annars verið nálægt því að kafna á eigin ælu. Það hafi verið einkahjúkrunarfræðingur hans sem skipaði læknunum að halda áfram að bjarga lífi páfans.

„Reynið allt, ekki gefast upp,“ hefur læknirinn eftir Massimiliano Strappetti, hjúkrunarfræðingi páfa. Hætta hafi verið til staðar á að meðferðin skaðaði nýru hans og beinmerg. Á endanum hafi hann brugðist við meðferðinni og komist á bataveg.

Frans er 88 ára gamall. Læknar hafa skipað honum að hvíla sig í tvo mánuði og ekki liggur fyrir hvort hann muni koma fram opinberlega í millitíðinni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Páskar, stærsta hátíð rómversk-kaþólsku kirkjunnar, eru á næsta leiti.


Tengdar fréttir

Útskrifast á morgun og þarf að læra að tala upp á nýtt

Frans páfi verður útskrifaður af spítala á morgun eftir rúmlega tveggja mánaða spítalavist. Við tekur tveggja mánaða hvíld að læknisráði og mun hann þurfa að læra að tala upp á nýtt eftir að hafa misst röddina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×