Erlent

Saka Khalil um að hafa farið leynt með störf sín fyrir UNRWA

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Khalil segist pólitískur fangi.
Khalil segist pólitískur fangi. Getty/Adam Gray

Stjórnvöld hafa lagt fram ný gögn í máli þeirra gegn Mahmoud Khalil, sem var meðal þeirra sem leiddu mótmæli nemenda við Columbia-háskóla gegn hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna á Gasa.

Khalil, sem er með dvalarleyfi í Bandaríkjunum, var handtekinn á dögunum og sakaður um gyðingaandúð. Stjórnvöld vilja vísa honum úr landi en Khalil hefur höfðað mál og segir brotið á tjáningarfrelsi sínu.

Nýjustu vendingar í málinu eru þær að yfirvöld segja nú að Khalil hafi ekki sagt satt og rétt frá á umsókn sinni um dvalarleyfi. Hann hafi meðal annars leynt því að hafa starfað fyrir Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna og Sýrlandsskrifstofu breska sendiráðsins í Beirút í Líbanon.

Þá tilheyrði hann einnig aðgerðahópnum Columbia University Apartheid Divest.

Yfirvöld segja þetta eitt og sér nægja til að réttlæta brottvísun Khalil en lögmenn hans segja um að ræða hreinan fyrirslátt. Stjórnvöld séu einfaldlega í hefndaraðgerðum gegn Khalil.

Lögmenn Khalil vilja fá hann lausan og hafa neitað því að hann hafi á nokkurn hátt stutt Hamas.

Nú þegar málið hefur ratað til dómstóla þurfa yfirvöld annað hvort að sanna að Khalil hafi vísvitandi haldið því leyndu að hann hafi starfað fyrir UNRWA og að sú staðreynd hefði komið í veg fyrir að hann fengi dvalarleyfi, eða að dvöl hans í Bandaríkjunum sé ógn við öryggi landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×