Marga sterka leikmenn vantaði í lið Lakers, þar á meðal LeBron James, föður Bronnys. Strákurinn hefur fengið fá tækifæri með Lakers í vetur en fékk meira að spila í leiknum í nótt og nýtti tækifærið vel.
Bronny skoraði nefnilega sautján stig í leiknum og var stigahæstur í liði Lakers ásamt Dalton Knecht. Bronny hitti úr sjö af tíu skotum sínum, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar á þrjátíu mínútum.
BRONNY JAMES CUTS IT TO SINGLE DIGITS!!
— NBA (@NBA) March 21, 2025
LeBron and the Lakers bench loving it 👏👏 pic.twitter.com/cTjguHDnNZ
„Þetta kom mér ekki á óvart. Ég held að sjálfstraust hans sé að aukast. Ég held að næsta skref sé að verða íþróttamaður í toppformi. Því þegar hann gerir það, með líkamlegu hæfileikana, sprengjuna og boltameðferðina, og við höldum að hann verði yfir meðallagi eða mjög góð skytta, hefur hann tækifæri til að hafa áhrif,“ sagði JJ Redick, þjálfari Lakers.
Bronny hefur tekið þátt í 22 leikjum með Lakers í vetur og skorað í þeim 2,3 stig að meðaltali. Skotnýting hans er 35,4 prósent. Hann hefur látið öllu meira að sér kveða með South Bay Lakers í þróunardeild NBA. Þar er Bronny með 20,6 stig, 5,0 fráköst og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í níu leikjum.
Fyrir leikinn í nótt hafði Lakers unnið þrjá leiki í röð. Liðið er í 4. sæti Vesturdeildarinnar með 43 sigra og 26 töp.