Þetta er í tíunda skiptið sem keppnin er haldin undir forystu Manuelu Óskar Harðardóttur en endurvakin keppni hefur sett valdeflingu og samstöðu kvenna í forgrunn. „Það er okkar meginmarkmið, að hjálpa konum að blómstra og líða sem best í eigin skinni. Það er óneitanlega mikil pressa á konum í dag og við erum eins misjafnar og við erum margar - en allar eigum við það sameiginlegt að vilja líða vel. Undirstaðan að vellíðan er að elska og samþykkja sjálfa sig, vinna að markmiðum sínum og sjá drauma sína rætast.“
Hægt er að greiða atkvæði í kosningunni um Netstúlkuna 2025 hér fyrir neðan. „Netkosningin er skemmtilegur partur af keppninni, en dómnefnd mun velja níu konur sem fara áfram - hin tíunda er svo stúlkan sem þjóðin kýs í netkosningunni,“ segir Elísa Gróa Steinþórsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Ungfrú Ísland.
Alls keppa tuttugu konur um titilinn í ár, á aldrinum 18-37 ára. Það verður spennandi að fylgjast með þegar Sóldís Vala Ívarsdóttir, Ungfrú Ísland 2024, krýnir arftaka sinn í Gamla Bíó þann 3.apríl næstkomandi. Miðasala er hafin á tix.is og keppnin verður einnig sýnd í beinni útsendingu hér á Vísi.