Samkvæmt skýrslunni eru meðallaun fótboltakonu 10.900 Bandaríkjadalir. Það gera rétt tæplega eina og hálfa milljón íslenskra króna.
Í skýrslunni er félögum í kvennaboltanum skipt upp í þrjú stig. Í fyrsta stiginu er 41 félag í sextán löndum. Meðallaun leikmanna þessara félaga eru í kringum 24 þúsund Bandaríkjadali, eða 3,2 milljónir íslenskra króna.
Sextán af þessum stærstu félögum greiða að meðaltali fimmtíu þúsund Bandaríkjadali í árslaun, eða 6,7 milljónir íslenskra króna. Hæstu árslaunin eru um 120 þúsund Bandaríkjadalir. Það gera rétt rúmlega sextán milljónir íslenskra króna.
Leikmenn sem spila fyrir félög á öðru stigi fá 4.361 Bandaríkjadali (584.592 íslenskar krónur) og leikmenn á þriðja stiginu 2.805 Bandaríkjadali (376.010 íslenskar krónur).
Leikmenn í efsta stiginu eru með lengstu samningana en þeir eru oftast frá einu til þriggja ára. Leikmenn í þriðja stiginu eru flestir með mjög stutta samninga.