Osafengið veðurfar, þar á meðal sterkir vindar og fellibylir, er talið munu hafa áhrif á íbúasvæði meira en 130 milljóna manna.
Frá landamærum Kanada til Texas er vindum spáð sem geta náð allt að 36 metrum á sekúndu (130 km/klst) sem geti bæði leitt til snjóstorma á kaldari svæðum í norðri og gróðureldahættu í þurrari og heitari svæðum í suðri.
Hvirfilbylir tættu í sig hús
Flest dauðsföll urðu á laugardagsmorgun í Missouri þegar ellefu létust af völdum hvirfilbylja. Samkvæmt vegaeftirliti Missouri-ríkis slösuðust einnig fjölmargir. AP fjalla um málið.
Meðal þeirra sem létust var maður sem dó þegar hvirfilbylur tætti hús hans í sundur.
„Það var óþekkjanlegt sem heimili. Bara rústir einna,“ sagði Jim Akers, dánardómstjóri Butler-sýslu, þegar hann lýsti aðstæðunum sem blöstu við viðbragðsaðilum.
„Gólfið var á hvolfi. Við gengum á veggjunum.“ Hins vegar hafi björgunarmönnum tekist að bjarga konu úr rústunum.

Sandstormar og gróðureldar í suðri
Yfirvöld í Arkansas greindu frá því að í morgun hefðu þrír dáið í Independence-sýslu og 29 aðrir slasast í átta sýslum eftir að stormurinn reið yfir.
Sarah Huckabee Sanders, ríkisstjóri Arkansas, greindi frá því á X að björgunarsveitarmenn væru á vettvangi til að aðstoða fólk og að hún hefði tekið 250 þúsund Bandaríkjadala (um 33,6 milljónir króna) úr neyðaráætlunarsjóði til að styðja við þau samfélög sem hefðu skaðast í stormviðrinu.
Þá létust þrír í bílslysum í sandstormi í Amarillo í norðurhluta Texas, sem kallaður er Texaspönnuskaftið (e. Texas Panhandle). Íbúar ríkisins hafa bæði glímt við mikla sandstorma og meira en hundrað gróðurelda.
Ástandið í Okalhoma virðist enn verra þar sem tilkynnt hefur verið um 130 gróðurelda og fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa heimili sín. Næstum 300 heimili hafa orðið fyrir tjóni eða eyðilagst í Oklahoma vegna eldanna. Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma, sagði um 69 hektara lands hafa orðið eldunum að bráð.