Lífið

„Var mjög sár og reið út í hann þegar ég sá hann“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún hefur verið lögreglukona í tæplega þrjátíu ár.
Guðrún hefur verið lögreglukona í tæplega þrjátíu ár.

Guðrún Jack hefur verið lögreglukona á Íslandi í tæp fjörutíu ár. Hún hefur upplifað ýmislegt á ferlinum eins og þegar hún kom að vini sínum látnum.

„Ég var á vakt í umferðadeildinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Við erum send á vettvang á Kjalarnesinu. Ég er fyrst á vettvang og mig minnir að þarna hafi jepplingur og rúta lent saman. Ég gerði mér strax grein fyrir því að þarna var á ferðinni vinur minn, vinnufélagi og skólabróðir,“ segir Guðrún í Íslandi í dag á Stöð 2. Og hún heldur áfram.

„Það kemur maður að mér og stoppar mig í rauninni af, að þarna væri maður sem ég þekkti. Síðan köllum við eftir aðstoð og sjúkrabílinn kom, og slökkviliðið. Það þekktu hann margir og ég man þegar ég bjó um hann, við ásamt slökkviliðinu settum hann í poka á grasinu fyrir utan rútuna og ég kvaddi hann þar.“

Hún segir að annar maður hafi látist í rútunni og hinn hafi sofnað undir stýri og í kjölfarið lent í árekstrinum.

„Ég frétti það að maðurinn sem ég þekkti hefði verið að vinna í einhvern sólarhring fyrir vestan og þurft síðan í kjölfarið að komast í bæinn,“ segir Guðrún en sú ákvörðun átti eftir að vera afdrifarík. Hún segir að erfitt sé að lýsa þeim tilfinningum þegar maður kemur að vini sínum látnum í svona aðstæðum.

„Mig minnir að ég hafi tekið hann út úr bílnum. Ég man eftir að ég hugsaði, af hverju gast þú ekki hvílt þig eða eitthvað svoleiðis. Ég man eftir því að ég var mjög sár og reið út í hann þegar ég sá hann. Ég talaði eitthvað lítilsháttar við hann. Þetta var svo mikill óþarfi og gríðarlega ósanngjarnt og hefði ekki þurft að gerast,“ segir Guðrún en sjá má innslagið í heild sinni hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.