Umræðan

Hvað hefur gerst frá lækkun banka­skatts?

Ingvar Haraldsson skrifar

Reglulega kemur upp umræða um áhrif af lækkun hins svokallaða bankaskatts á skuldir fjármálafyrirtækja sem tók gildi árið 2020. Spurt hefur verið hvort að sú lækkun hafi skilað sér til viðskiptavina bankanna og þá að hve miklu leyti.

Erfitt er að meta það nákvæmlega í ljósi þeirra miklu sveiflna sem orðið hafa í efnahagslífinu frá upphafi heimsfaraldursins til viðbótar við hækkunar annarra álaga á banka á tímabilinu. Engu að síður bendir margt til þess að þrátt fyrir hátt vaxtastig nú um stundir hafi orðið jákvæð þróun á ýmsum sviðum sem komið hefur neytendum til góða á fjármálamarkaði Íslandi, sér í lagi í samanburði við önnur Evrópuríki. Ber þá ekki síst að horfa til minnkandi mismunar á inn- og útlánsvöxtum líkt og fjallað hefur verið um í ritum Seðlabankans og Evrópska bankaeftirlitsins (EBA).

Bankaskattar á Íslandi fleiri og hærri en í öðrum ríkjum

Með lækkun hins svonefnda bankaskatts árið 2020 fór skattprósentan úr 0,376% í 0,145% af skuldum fjármálafyrirtækja umfram 50 milljarða króna. Lækkunin samsvarar ríflega 0,2 prósentustigum af útlánum bankanna eða tæplega einni stýrivaxtalækkun. Áður hafði verið lagt til að lækka bankaskattinn sökum margvíslegra neikvæðra áhrifa skattsins, til að mynda í Hvítbók fjármálaráðuneytisins um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018 en Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og Bankasýsla ríkisins höfðu einnig hvatt til lækkunar. Í kjölfar þess að skattalækkunin tók gildi árið 2020 tilkynntu allir viðskiptabankarnir um lækkun útlánsvaxta með vísan til lækkunar bankaskattsins.

Stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðagreiðslubankann hafa litið á óvaxtaberandi bindiskyldu sem ígildi skattlagningar á fjármálastarfsemi.

Bankaskatturinn er þó enn við lýði og er einn af þremur sköttum sem fjármálafyrirtæki greiða umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi. Skattar á fjármálafyrirtæki hér á landi eru bæði fleiri og hærri en almennt á hinum Norðurlöndunum og öðrum Evrópuríkjum. Sérstöku bankaskattarnir á Íslandi eru auk skattsins á skuldir, 5,5% viðbótarskattur á launakostnað og 6% viðbótartekjuskattur á hagnað umfram einum milljarði króna, til viðbótar við sérstök gjöld til að fjármagna rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara. Alls nema þessir sértæku skattar og gjöld á fjármálafyrirtæki og eftirlitsskylda aðila um 20 milljörðum króna á ári. Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) á síðasta ári var áætlað að þrátt fyrir lækkun bankaskattsins á skuldir árið 2020 hafi skattgreiðslur íslenskra banka hafi verið þær langhæstu í Evrópu árið 2022 miðað við áhættuvegnar eignir.

Lækkunin gengið til baka með öðrum hækkunum?

Þá hefur umfang skattalækkunarinnar að miklu leyti gengið til baka með hækkun svokallaðrar óvaxtaberandi bindiskyldu af hálfu Seðlabankans úr 1% í 3% undanfarin tvö ár. Í því felst að bönkum ber að geyma vissa fjárhæð vaxtalaust á reikningi hjá Seðlabankanum. Stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðagreiðslubankann hafa litið á óvaxtaberandi bindiskyldu sem ígildi skattlagningar á fjármálastarfsemi. Kostnaður bankanna af óvaxtaberandi bindiskyldu sveiflast með vaxtastigi og umfangi vissra skulda bankanna. Á síðasta ári nam kostnaður af bindiskyldunni um 8 milljörðum króna og var mun hærri en til að mynda á evrusvæðinu samkvæmt skýrslu Intellecon. Í skýrslunni var áætlað að kostnaðurinn af bindiskyldunni kynni að nema allt að 0,21 prósentustigi af útlánum bankanna. Því má segja að áhrif af lækkun bankaskattsins hafi að verulegu leyti gengið til baka með hækkun bindiskyldunnar.

Íslandsálag á vexti allt að 1% sökum krafna stjórnvalda

í Hvítbókinni eru hinir sértæku skattar á banka ásamt smæð bankanna og háum eiginfjárkröfum sagðir leiða til svokallaðs Íslandsálagi á vexti hér á landi. Intellecon áætlaði að Íslandsálag í formi hærri sértækra skatta, hærri óvaxtaberandi bindiskyldu og eiginfjárkrafna umfram nágrannaríkin kynnu að valda því að útlánsvextir hér á landi væru allt að 0,96% til 1,15% hærri en ella. Umreiknað á 50 milljón króna húsnæðislán kynnu áhrif þessa Íslandsálags að nema um 480-575 þúsund krónum á ári. Þó var tekið fram að ákvörðun um vexti væri í höndum hvers og eins lánveitanda og gæti verið ólík milli aðila, yfir tíma og tegundir lána. Áhrifin kunni einnig að koma fram með öðrum leiðum s.s. niðurskurði kostnaðar eða þjónustu, minni arðgreiðslu til eigenda eða lægri innlánsvöxtum.

Vaxtamunur heimila lækkað talsvert frá lækkun bankaskatts

Vísbendingar eru um margskonar hagfellda þróun gagnvart neytendum frá lækkun bankaskattsins árið 2020 þrátt fyrir háa stýrivexti nú um stundir, þó þar skipti vafalaust fleiri þættir máli en skattabreytingar. Þannig sýndi nýleg skýrsla Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) að vaxtamunur milli vaxta inn- og útlána til heimila og fyrirtækja hjá bönkunum hér á landi hefði lækkað verulega frá lækkun bankaskattsins eða um 1,3 prósentustig milli áranna 2019 og 2023. Að þessu leyti hefur Ísland skorið sig úr í samanburði við önnur ríki Evrópu þar sem vaxtamunurinn hafði hækkað víðast hvar.

Árið 2023 var vaxtamunur á Íslandi á þennan mælikvarða einn sá lægsti í Evrópu samkvæmt úrtakinu í skýrslu EBA. Svipaða niðurstöðu er að finna í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra, frá árinu 2023 þar sem fram kemur að vaxtamunur heimila hér á landi hafi lækkað á síðustu árum og hafi verið sá næst lægsti af Norðurlöndunum mælt sem munur milli íbúðalánavaxta og innlánsvaxta.

Seðlabankinn hefur einnig bent á að vaxtamunur heimila, mælt sem mismunur milli inn- og útlánsvaxta, hafi lækkað umtalsvert á síðustu árum og hafði nýlega aldrei mælst minni frá því Seðlabankinn hóf mælingar árið 2015. Þannig var þessi vaxtamunur að meðaltali um 3,2% frá árinu 2015 en hafði lækkað í 2,3% á síðasta ári.

Aukin samkeppni um innlán ein sérstaða Íslands

Í ársriti Fjármálaeftirlits Seðlabankans sem kom út í síðustu viku kemur fram að samkeppni um innlán hafi aukist á undanförnum árum sem leitt hefði af sér hlutfallslega hærri vexti af innlánum en áður sem og lækkun á vaxtamun bankanna á síðasta ári. Seðlabankinn hefur áður fjallað um hvernig Ísland hefur skorið sig frá öðrum Evrópulöndum þar sem vextir á innlánum hafa fylgt hækkandi stýrivöxtum mun betur en í öðrum Evrópulöndum. Þessi þróun hefur átt þátt í því að sú óvenjulega staða hefur verið uppi frá miðju ári 2022 að vaxtatekjur heimila á Íslandi hafa verið hærri en vaxtagjöld þeirra, en það hafði ekki gerst síðan árið 2009.

Í ársriti Fjármálaeftirlits Seðlabankans kemur fram að samkeppni um innlán hafi aukist á undanförnum árum sem leitt hefði af sér hlutfallslega hærri vexti af innlánum en áður sem og lækkun á vaxtamun bankanna á síðasta ári

Víða í Evrópu urðu hækkandi stýrivextir hins vegar til þess að vextir útlána hækkuðu mun hraðar en innlánsvextir sem leiddi til þess að vaxtamunur og vaxtatekjur banka jukust verulega. Slíkt hefur ekki verið raunin hér á landi í sama mæli en arðsemi eigin fjár íslenskra banka hefur verið ein sú lægsta meðal ríkja Evrópu undanfarin ár.

Jákvæð þróun fyrir neytendur á ýmsum sviðum

Þessi sérstæða þróun hér á landi er snýr að innlánsvöxtum og vaxtamun neytenda kann svo aftur að skýrast að einhverju leyti af auknu vöruframboði, framþróun í tæknilausnum, til viðbótar við lagabreytingar, sem hafa auðveldað fólki að færa bankaviðskipti sín á milli lánastofnana eða endurfjármagna húsnæðislán sín hjá einum af ríflega 20 lánveitendum íbúðalána hér á landi. Samkvæmt könnun Gallup fyrir SFF eru íslenskir neytendur þeir duglegustu í Evrópu að færa viðskipti sín á milli fjármálafyrirtækja. Íslenskir neytendur virðast því sjálfir hafa stuðlað að því að þeim bjóðist betri kjör en áður, þó hátt stýrivaxtastig séu vissulega áskorun fyrir mörg heimili nú um stundir.

Því bendir margt til þess að ánægjulegar breytingar hafi orðið gagnvart neytendum á fjármálamarkaði frá lækkun bankaskattsins árið 2020 og mun sú þróun vonandi halda áfram.

Höfundur er greininga- og samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.




Umræðan

Sjá meira


×