Innlent

Níu af þrettán styrkjum fara í kjör­dæmi ráð­herra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjólfur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra síðan í desember.
Eyjólfur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra síðan í desember. Vísir/Vilhelm

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum til þrettán verkefna á landsbyggðinni til að efla byggðir landsins. Níu af verkefnunum þrettán eru í kjördæmi ráðherrans.

Fram kemur í tilkynningu á vef ráðuneytisins að nítján umsóknir hafi borist fyrir um 437 milljónir króna. Áætlaður heildarkostnaður verkefnanna sé rúmlega 800 milljónir króna. 

Lista yfir verkefnin þrettán má sjá að neðan. Níu þeirra koma úr Norðvesturkjördæmi sem er kjördæmi Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Markmiðið með styrkveitingum er í tilkynningunni sagt vera að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geti sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtist einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin séu hafa varanleg áhrif, séu atvinnuskapandi og hvetji til nýsköpunar verði í forgangi.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Valnefndina skipuðu þau Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sem jafnframt var formaður, Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar.

„Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun ráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna,“ segir á vef ráðuneytisins.


Auðarstofa – Nýsköpunar- og þekkingarsetur í Dalabyggð

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi.

Styrkupphæð: 13,5 m.kr.

Verkefnið snýst um að efla Nýsköpunarsetur Dalabyggðar til muna með því að standsetja verklegt rými og setja þar einnig á legg þekkingarsetur. Fyrsta árið verður þróuð stefna og áherslur fræðasetursins, unnið að hönnun rýmisins sem hýsa mun fræða- og nýsköpunarsetrið ásamt því að unnið yrði að endurbótum á rýminu. Seinna árið yrði unnið markmisst að því að efla starfsemi í setrinu með áherslu á fjölgun sérfræðistarfa og skipulagt fræðsluátak fyrir frumkvöðla, atvinnurekendur og íbúa.


„Hver vegur að heiman er vegurinn heim“

Styrkþegi: Samband sveitarfélaga á Vesturlandi.

Styrkupphæð: 10 m.kr.

Verkefnið snýst um að draga fram og miðla tækifærum innan Dalabyggðar, með það að markmiði að efla byggðafestu. Byggðafesta stendur og fellur með núverandi íbúum og mikilvægt er að sporta við brottflutningi íbúa með öllum ráðum. Þetta á að gera með fjölbreyttum aðferðum, með því að ná bæði til ungs fólks og fullorðinna íbúa. Þróuð veður kennsla í átthagafræði, skipulagðar fjölbreyttar starfskynningar, búið til tengslanet við fráflutt ungmenni, unnið að vönduðu margmiðlunarefni og skipulögð vönduð fræðsluröð sem eykur þekkingu íbúa á heimabyggð sinni.


Byggðabragur – sjálfsmynd íbúa og ímynd nýs sveitarfélags

Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Styrkupphæð: 9,4 m.kr.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinuðust árið 2024. Svæðið hefur átt undir högg að sækja í áratugi og umfjöllun oft reynst íbúum erfið. Verkefnið miðar að því að styrkja sjálfsmynd svæðisins og vinna með sveitarfélaginu og íbúum að því að skapa framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag og byggja á henni ímyndarsókn.


Tenging fjárfesta við innviði og auðlindir á Vestfjörðum

Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Styrkupphæð: 10,6 m.kr.

Verkefnið gengur út á að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Vestfjörðum með því að kynna vannýttar auðlindir og staðsetningar fyrir fjárfestum sem hafa áhuga og getu til nýfjárfestinga í matvælaframleiðslugreinum eins og landeldi, smáþörungaframleiðslu og líftækni, ásamt öðrum greinum sem styðja við verðmætasköpun á svæðinu.


Samræmd móttaka og inngilding íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

Styrkþegi: Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Styrkupphæð: 10 m.kr.

Verkefnið snýr að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélög á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélög. Annar hlutinn snýr að því að vinna með sveitarfélögum að því að finna leiðir innan stjórnsýslunnar til þess að raddir íbúa af erlendum uppruna nái að heyrast.


Orkuskipti í Húnaþingi vestra

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Styrkupphæð: 7,2 m.kr.

Undirbúningur og greining á fýsileika á uppsetningu staðarveitna tengdum varmadælum, í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra, á köldum svæðum í dreifbýli í Húnaþingi vestra þar sem ekki er kostur að tengjast dreifikerfi hitaveitu.


Gamli bærinn á Blönduósi – aðdráttarafl ferðamanna

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Styrkupphæð: 13,4 m.kr.

Markmið verkefnisins er að hanna sýn/leikmynd á endurgerð gamla bæjarins á Blönduósi og þróa söguleiðsögn með það að markmiði að efla ferðaþjónustu á svæðinu og skapa ný störf í sveitarfélagi sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum í atvinnumálum.


Þekkingargarðar á Norðurlandi vestra

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Styrkupphæð: 8 m.kr.

Verkefnið miðar að stofnun þekkingargarða á Norðurlandi vestra með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Garðarnir munu tengja atvinnulíf, háskólasamstæðu Háskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og sveitarfélög. Áherslan er á sjálfbæra matvælaframleiðslu sem byggir á styrkleikum svæðis.


Hjólin eru að koma – tækifæragreining fyrir sjálfbæra hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Styrkupphæð: 4,8 m.kr.

Í verkefninu verður unnin tækifæragreining fyrir hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Þar verða þjónustuframboð og landfræðilegir möguleikar svæðisins mátaðir við þær tegundir hjólaferðamennsku, sem eru útbreiddastar og þeir innviðir og sú þjónusta kortlögð, sem vantar til að mæta þörfum þessa sístækkandi markhóps. Með þessu vill landshlutinn marka sér sérstöðu sem áfangastaður hjólreiðafólks og skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila svæðisins í þéttbýli jafnt sem dreifbýli, sem allflest teljast til ör- og smáfyrirtækja, að þjónusta þennan hóp.


Ráðhúsið á Raufarhöfn, atvinnu- og samfélagssetur

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Styrkupphæð: 8 m.kr.

Með atvinnu- og samfélagssetri er verið að skapa aðstöðu til fjölbreyttari atvinnustarfsemi á staðnum, laða að frumkvöðla og nema, efla menntastig þorpsins og styrkja stoðir þess sem fyrir er. Fjölbreytt starfsemi er þegar í húsinu, m.a. SSNE, Norðurþing, Orkuveita Húsavíkur, Landsbankinn og Íslandspóstur og því góður grunnur.


Endurnýjun hluta stofnlagnar frá borholu Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs við Skógalón

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Styrkupphæð: 15 m.kr.

Stofnlögnin frá borholu Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs við Skógalón er 27 ára gömul plastlögn sem er farin að bila og flutningsgetan er takmörkuð. Leggja á nýja stofnlögn í stálefni en með því eykst flutningsgetan og endingartími lagnarinnar.


Samvinnuhús í jaðarbyggðum á Austurlandi – Samvinnuhús á Vopnafirði

Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Austurlandi.

Styrkupphæð: 14,1 m.kr.

Markmiðið er að setja upp samvinnurými á Vopnafirði ásamt því að kortleggja stöðu samvinnurýma á Austurlandi. Með samvinnurýmum í öllum byggðakjörnum Austurlands verður til aðstaða til atvinnu; fyrir óstaðbundin störf, ný störf og störf í ófullnægjandi aðstöðu. Þar með fjölgar tækifærum fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi á svæðinu, óstaðbundin störf og eflingu menntastigs byggðanna með aðstöðu til fjarnáms.


Byggðaþróun og efling samfélags í Grindavík og nærliggjandi svæða

Styrkþegi: Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Styrkupphæð: 16 m.kr.

Tilgangur verkefnisins er að aðstoða Grindavík við að ná vopnum sínum aftur, styrkja bæjarfélagið í þeim verkefnum sem framundan eru og styrkja samstarfið við önnur sveitarfélög á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×