Viðskipti innlent

Kveður Heimildina og hefur störf hjá Rauða krossinum

Atli Ísleifsson skrifar
Sunna Ósk Logadóttir hefur lengi starfað í fjölmiðlum en söðlar nú um.
Sunna Ósk Logadóttir hefur lengi starfað í fjölmiðlum en söðlar nú um. Bára Huld Beck

Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður sem starfað hefur hjá Heimildinni síðustu ár, hefur verið ráðin til Rauða krossins. Hún mun þar gegna starfi kynningar- og fjölmiðlafulltrúa.

Þetta staðfestir Sunna Ósk í samtali við fréttastofu. Greint var frá því á Vísi í síðasta mánuði að Sunna Ósk væri að vinna uppsagnarfrest á Heimildinni.

Sunna Ósk hefur lengi starfað í blaðamennsku en hún hóf störf hjá Morgunblaðinu árið 1999. Hún gegndi stöðu fréttastjóra á blaðinu á árunum 2008 til 2012 og svo fréttastjóra á mbl.is til ársins 2016.

Sunna Ósk er landfræðingur að mennt og hefur á blaðamannaferli sínum mikið skrifað um umhverfismál. Þannig hefur hún þrívegis hlotið Blaðamannaverðlaun Íslands; fyrir skrif um Landspítalann árið 2005, málefni flóttamanna árið 2015 og svo nýtingu náttúruauðlinda árið 2017.

Greint var frá því fyrr í vikunni að Sunna Ósk hafi ásamt Bjartmari Oddi Þey Alexanderssyni verið tilnefnd fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir fréttaskýringar sínar um fyrirtækið Running Tide.


Tengdar fréttir

Kjarninn farinn úr Heimildinni

Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður hefur söðlað um, hann er hættur á Heimildinni og er hann nú orðinn starfsmaður þingflokks Samfylkingarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×