Áskorun

„Sagði börnunum að vondur maður hefði meitt mömmu“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kathryn Gunnarsson hélt að hún væri að flytjast til öruggasta lands í heimi þegar hún og eiginmaðurinn, Valtýr Gauti Gunnarsson, fluttu frá London til Reykjavíkur með dæturnar tvær árið 2016. Þremur árum síðar var Kathryn nauðgað af ókunnugum manni sem kom að henni þegar hún var að leita af leigubíl.
Kathryn Gunnarsson hélt að hún væri að flytjast til öruggasta lands í heimi þegar hún og eiginmaðurinn, Valtýr Gauti Gunnarsson, fluttu frá London til Reykjavíkur með dæturnar tvær árið 2016. Þremur árum síðar var Kathryn nauðgað af ókunnugum manni sem kom að henni þegar hún var að leita af leigubíl. Vísir/RAX

Mörg okkar ímyndum okkur að þegar verið er að taka fyrir mál nauðgara, raðnauðgara eða annarra harðsvíraðra kynferðisafbrotamanna í dómssal, takist á saksóknari og lögfræðingur, þar sem sá seki þarf að svara til saka og fórnarlambið reynir af bestu getu að koma sínu á framfæri, samhliða því að fylgjast með gangi mála.

Ekkert ólíkt því sem við sjáum í glæpaseríum í sjónvarpinu. Nema fyrir utan kviðdóm eða opin réttarhöld.

Í dag heyrum við hins vegar sögu sem svo sannarlega kippir okkur inn í allt annan veruleika.

„Ég hélt ég væri að flytja í öruggasta land í heimi, landið sem er í fyrsta sæti fyrir jafnrétti í heiminum og án efa besta landið í heimi til að ala upp tvær dætur,“ segir Kathryn Gunnarsson, eiginkona, móðir og atvinnurekandi með glæstan starfsferil að baki svo ekki sé meira sagt.

Síðustu árin hef ég þó oft velt því fyrir mér: 

Hvor telst mikilvægari þegn í íslensku samfélagi; 

Ég eða nauðgarinn minn?“

Því kvöld eitt fyrir nokkrum árum síðan, var Kathryn á leiðinni heim eftir að hafa átt skemmtilega kvöldstund með nokkrum vinnufélögum í miðbæ Reykjavíkur.

Kathryn komst ekki heil heim.

Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Kathryn og Valtýr kynntust í London og bjuggu þar fyrstu hjónabandsárin sín. Kathryn á glæsilegan starfsferil að baki og á Íslandi rekur hún sitt eigið fyrirtæki; Geko. Lengst af var lífið í blóma eða allt þar til kvöld eitt árið 2019. Í dag er Kathryn til dæmis með sjálfsofnæmissjúkdóm sem rekja má til áfallsins sem hún varð fyrir.

Swiftie-fjölskyldan

Þrátt fyrir átakanlega sögu er oft stutt í hláturinn hjá Kathryn. Og það þarf ekki langa samveru til að átta sig á því að þarna er vel upplýst og málefnaleg kona á ferð. 

Kathryn á og rekur fyrirtækið Geko, sem nú fagnar fimm ára afmæli sínu. Geko þjónustar ýmiss fyrirtæki í mannauðsmálum enda Kathryn margreynd í þeim geira á alþjóðavísu.

Eiginmaður Kathryn er Valtýr Gauti Gunnarsson hugbúnaðarráðgjafi en dæturnar þeirra eru fæddar árið 2013 og árið 2015.

„Við erum Swiftie-fjölskylda!“ segir Kathryn og hlær. Svo miklir aðdáendur Taylor Swift að í fyrra lagði fjölskyldan land undir fót til að sækja tónleika söngdívunnar í Póllandi.

Kathryn er fædd árið 1977 og ólst upp í Sutton Coldfield, sem er rétt norður af Birmingham í Bretlandi.

„Mamma og pabbi lögðu mikla áherslu á að við værum dugleg og myndum ná að spjara okkur en við erum fimm systkinin þannig að oft var fjör á heimilinu.“

Kathryn er ein af fimm systkinum, átti frábæra æsku og segir fjölskylduna afar samheldna. Kathryn segist óendanlega þakklát foreldrum sínum fyrir þau tækifæri sem þau sköpuðu fyrir systkinin til að geta spjarað sig og komist áfram í lífinu. Foreldrarnir hafi líka lagt mikla áherslu á að þau væru dugleg.

Pabbi Kathryn starfaði hjá IBM en móðir Kathryn var skólastjóri í sérskóla.

„Á hverju sumri var hópnum smalað upp í bíl og fjölskyldan brunaði í lítinn bæ í Suður Frakklandi þar sem við nutum okkar í nokkrar vikur.“

Upphaflega stefndi Kathryn að því að verða hjúkrunarfræðingur. Þau plön breyttust, ekki síst vegna þess að við tók tuttugu ára feril ýmissa stjórnendastarfa, oft í hugbúnaðargeiranum en nánast án undantekninga með snertingu við ráðninga- og mannauðsmálin.

Þessi starfsreynsla átti eftir að koma Kathryn að góðu gagni síðar. Því vegna tæknikunnáttu sinnar, náði hún að rannsaka sitt mál sjálf með þeim hætti að í réttarhöldunum voru gögn úr síma Kathryn lögð fram máli hennar til stuðnings, en það var í fyrsta sinn á Íslandi sem stafræn gögn sem þessi voru lögð fram sem sönnunargögn.

Til að átta okkur betur á sögunni, er því best að kynnast Kathryn betur í gegnum starfsframann og reynsluna.

Það sem einkennir starfsferil Kathryn í Bretlandi eru ekki aðeins mannauðsmálin eða reynslan af þeim á alþjóðavísu heldur einnig hversu oft henni var einfaldlega boðið spennandi starf. En hún var líka dugleg að sækja sér sín tækifæri sjálf og gekk mjög vel.Vísir/RAX

Ung í stjórnendastörf

Í Bretlandi er leyfilegt að byrja að vinna 16 ára.

„Ég byrjaði að vinna sem þjónn daginn eftir afmælið mitt,“ segir Kathryn og hlær.

Það sem einkennir svolítið sögu Kathryn er að oftar en ekki var hún sótt til starfa; fékk hvert tilboðið á fætur öðru eða að hún einfaldlega sótti sín tækifæri sjálf.

Fyrsta stóra tækifærið var árið 1999 þegar hún réði sig til fyrirtækis sem heitir Uplands og bauð upp á miklar nýjungar í farsímaþjónustu.

„Á þessum tíma var þróunin mikil í farsímum og allt að gerast,“ segir Kathryn og vísar meðal annars til tækniþróunar sem urðu á símum Ericsson, Nokia og BlackBerry; þessara merkja sem svo sannarlega ruddu brautina fyrir það sem síðar kom.

Kathryn varð fljótt sölu- og markaðsstjóri og þó var fyrirtækið á fleygiferð; vöxturinn gífurlegur.

„Í þessu starfi kynntist ég því vel hversu öflug og hröð tækniþróun getur verið. Ég man til dæmis enn eftir því þegar að ég sendi fyrstu SMS skilaboðin mín. Því mér fannst SMS skilaboðin dæmi um hversu miklu tæknin myndi brátt breyta í daglegu lífi fólks.“

Um tíma starfaði Kathryn í banka- og fjármálageiranum.

„Ég vann hjá HFC bankanum sem er hluti af HSBC og vann mig þar upp í stjórnunarstarf sem fólst í því að byggja upp teymi útibúa víðs vegar um Bretland sem voru ekki að gera sig. Starfið mitt fólst í að endurbyggja teymi, leggja línurnar að betri ráðningum á fólki, auka á frammistöðu og fleira. Þarna lærði ég vel á mína eigin hæfni þegar kemur að því að meta og ráða rétta fólkið í störf.“

Kathryn starfaði síðan um tíma hjá umboðsaðila við að byggja upp nýtt svið hjá fyrirtæki í smásölugeiranum. Sem leiddi hana að næsta stóra tækifæri: Að leiða hæfileika- og mannauðsstefnu bandarísks fyrirtækis sem heitir Max Studio og var á þessum tíma að kynna sig til leiks á breskum markaði.

„Ég var búin að vinna að mannauðsmálum í fjöldamörg ár með ýmsum hætti en þetta starf var fyrsta opinbera HR leiðtogahlutverkið mitt. Vinnuveitandinn minn var forríkur Rússi, fatahönnuðurinn Leon Max, sem sjálfur var með aðsetur í Los Angeles,“ segir Kathryn og bætir við:

„Mitt starf og þeirra sem ráðin voru í upphafi fólst í að koma Max Studio á laggirnar sem við gerðum með þvílíkum glæsibrag; staðsettum fyrirtækið á glæsilegu sveitasetri sem heitir Easton Neston en flottari umgjörð fyrir hönnunarfyrirtæki er hreinlega ekki hægt að hugsa sér. Á lóðinni byggðum við upp hönnunarstúdeó og réðum til okkar bestu sölumennina, hönnuði og fleiri þannig að brátt vorum við komin með vörumerki Max Studio á sölustaði eins og House of Fraser og víðar.“

Kathryn var orðin sölu- og markaðsstjóri rúmlega tvítug og það má segja að ríflega tuttugu ára starfsreynsla hennar í Bretlandi einkennist af mikilli velgengni. Kathryn segir þessa reynslu nýtast vel í störfum sínum fyrir Geko.

Ástin

Um tíma færði Kathryn sig aftur yfir í hugbúnaðargeirann og þar hélt hún áfram að hasla sér völl á sviði stjórnunar í mannauðsmálum. Enda er Kathryn löggiltur félagi í CIPD (Chartered Institute of Personnel and Development), sem er hæsta stig faglegra viðurkenninar í mannauðsmálum (e. HR and People Strategy).

Kathryn starfaði um tíma hjá tæknifyrirtækinu Saffron Digital sem á endanum var keypt af HTC í Taívan og enn síðar hjá alþjóðlegu ráðningarstofunni Spencer Ogden sem sérhæfir sig í ráðningum í orkugeiranum.

En loks kom að því að ástin bankaði á dyrnar.

Því árið 2011 kynntist hún eiginmanninum Valtý Gauta.

„Það tók mjög mjög langan tíma að læra að bera fram nafnið hans,“ segir Kathryn og skellihlær.

Ástarsaga Kathryn og Valtýs er sjarmerandi saga. Því þau sáust fyrst á veitingastað, tóku eftir hvort öðru en töluðu ekki saman.

Nokkru síðar, hafði Valtýr samband við Kathryn á stefnumótasíðu, en þetta var í árdaga þess að slíkar síður væru til.

„Og þá spurði ég hann: Bíddu, ertu þú gæinn sem ég sá á þessu veitingahúsi þetta kvöld….. Sem hann er og fór sem fór!“ segir Kathryn og hlær.

Valtýr hafði þá þegar verið búsettur í Bretlandi í þó nokkur ár en var á þessum tíma að vinna að undirbúningi sumar Ólympíuleikanna sem haldnir voru í London 2012.

Innan fárra mánaða var Kathryn orðin ólétt.

„Ég skal alveg viðurkenna að það var hálf skrýtið að hringja í mömmu og segja henni að ég væri orðin ólétt en enn ógift. Enda alin upp sem kaþólikki,“ segir Kathryn hlæjandi.

Úr varð að skötuhjúin giftu sig þegar Kathryn var komin sex mánuði á leið.

Það gerðist allt frekar hratt hjá Kathryn og Valtý eftir að þau byrjuðu saman, svo hratt reyndar að hún varð ófrísk fyrir giftingu; kaþólikkinn sjálfur! Skötuhjúin giftu sig þegar hún var komin sex mánuði á leið, fyrsta dóttirin fæddist árið 2013 og sú yngri árið 2015.

Eftir að yngri dóttirin fæddist 2015, fór Kathryn að upplifa fæðingarkvíða.

„Greiningarnar í Bretlandi eru öðruvísi en á Íslandi því fæðingarkvíði er ekki alveg það sama og fæðingarþunglyndi, heldur kvíði sem mæður geta upplifað í kjölfar fæðinga,“ útskýrir Kathryn.

„Allt í einu fór ég að hafa áhyggjur af öryggi dætra minna. Hvort það væri öruggt að búa í London með tvö lítil börn og svo framvegis. Mér leið illa en var ekki spennt fyrir því að flytja í eitthvað úthverfi eins og margir gera,“ segir Kathryn og bætir við:

„Því það hefði þá þýtt að ég hefði verið að leggja af stað til vinnu eldsnemma á morgnana, komandi heim seint og lítið sem ekkert að sjá börnin mín því ferðir til og frá vinnu væru að taka svo langan tíma.“

Á endanum var það því Kathryn sem stakk upp á því að þau myndu flytja til Íslands.

Bónorð Valtýs var fest á og á mynd til vinstri má sjá skötuhjúin með eldri dóttur sína og þarna er Kathryn ólétt af þeirri yngri. Eftir að hún fæddist glímdi Kathryn við fæðingarkvíða sem meðal annars fól í sér að hún fór að óttast öryggi dætranna, búandi í London. Úr varð að fjölskyldan flutti til Íslands; lands sem hún þá taldi það öruggasta í heimi.

Þegar lífið breyttist

Kathryn segir þau hjónin hafa verið það lánsöm að geta keypt sér húsnæði strax.

„Tengdaforeldrarnir sáu um að mæta á öll opnu húsin og senda okkur myndir og svo framvegis,“ segir Kathryn og brosir.

Því inn á heimilið sem þau keyptu, steig hún fyrst þegar þau fengu húsið afhent.

„Ég hafði engar áhyggjur af vinnu. Því Valtýr fékk vinnu á Íslandi áður en við fluttum heim. Hafandi minn feril og meðvituð um að ég nýt ákveðinna forréttinda að vera hvít enskumælandi kona, var ég viss um að atvinnuleit yrði nú ekki mikið mál fyrir konu eins og mig,“ segir Kathryn og hlær.

En auðvitað kom annað á daginn. Enda vitað að á Íslandi eiga útlendingar yfir höfuð oft erfitt með að fá störf við hæfi.

„Ég var fljót að átta mig á því að mig vantaði alveg tengslanet á Íslandi því hér gengur svo margt út á að þú þurfir að þekkja fólk. Valtýr var bjó í Bretlandi í 16 ár og ég gat því ekki mikið sótt í hans tengslanet.“

Og þó, því meðal þeirra sem aðstoðaði Kathryn var Jensína K. Böðvarsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alvotech en nú einn eigenda Win Win ráðningastofu.

„Jensína er frænka Valtýs og hún skýrði mjög vel út fyrir mér hvernig hlutirnir ganga í ráðningabransanum á Íslandi. Ég hafði til dæmis sjálf treyst svolítið á LinkedIn sem þó var ekki komið eins langt hér og fleira.“

Loks kom þó að því að Kathryn réði sig á ráðningastofu sem sérhæfir sig í tæknigeiranum. Þar starfaði hún í þrjú og hálft ár.

En það var að kvöldi í mars árið 2019 sem lífið breyttist.

„Ég var úti að skemmta mér með vinnufélögum eins og gengur og gerist og allir hafa leyfi til að gera. Það var hlegið og mikið gaman en eftir góða kvöldstund hélt ég heim. Þegar ég var að leita að leigubíl nálgaðist mig maður sem ég þekkti ekki...“

Umræddur maður er nauðgari en ekki verður farið út í það hér, að útlista þeim hryllingi sem síðan tók við.

Lífið breyttist árið 2019 því eftir góða kvöldstund með vinnufélögunum var Kathryn að leita sér að leigubíl þegar ókunnugur maður fór að tala við hana. Sá maður er nauðgari og komst Kathryn að því nokkrum árum síðar, þegar málið fór loksins fyrir dóm, að nauðgarinn hafði setið um hana umrætt kvöld. Vísir/RAX

Að gera allt rétt er ekki nóg

Eftir hrottalega árás manns sem Kathryn vissi enginn deili á og hafði aldrei séð, komst Kathryn loks heim.

„Valtýr var vakandi því hann var ekki að skilja hvers vegna ég var ekki að skila mér heim. Náði ekki í mig en hafði reynt að ná í mig og fylgdist með mér á staðsetningarappi,“ segir Kathryn og bætir við:

„Þegar ég var búin að segja Valtý hvað hafði gerst, byrjaði hann á því að gúggla sér til og passa að ég myndi gera allt rétt; Ég fór ekki í sturtu, ég fór ekki úr fötunum og svo framvegis. Við fórum á neyðarmóttökuna og á lögreglustöðinni gaf ég skýrslu. Þar svaraði ég öllum spurningum og gerði í raun allt sem ætlast er til að þolendum kynferðisafbrota.“

Kathryn segist þó alls ekki hafa gert sér grein fyrir því á þessari stundu, hversu ólíkt réttarkerfið á Íslandi er miðað við svo mörg önnur lönd. Margt sé þó jákvætt.

„Ég fékk strax túlk á lögreglustöðinni því Valtýr mátti ekki koma inn með mér. Í mínu tilfelli var ég svo heppin að þessi sami túlkur fylgdi mér allan ferilinn, líka þegar málið fór loks fyrir dóm,“ segir Kathryn og bætir við:

„Ég hélt að réttarkerfið á Íslandi og í Bretlandi væri frekar líkt en það sem ég hef nú lært er að svo er ekki. En ég fékk engar útskýringar. Það var hvergi í ferlinu neitt sem gat leiðbeint mér sem þolanda hvað tæki við. Hvað væri næst? Eða hvernig málin gengju fyrir sig.“

Sem dæmi nefnir Kathryn:

„Ég fékk til dæmis úthlutaðan lögfræðing þegar ég gaf skýrsluna mína en vissi ekki að ég hefði rétt á að velja mér lögfræðing.“

Að vita ekki hver árásarmaðurinn segir Kathryn að hafi verið hræðilega vond tilfinning.

Og að bíða eftir því hvort hann myndi nást, var jafnvel verra.

Tveimur vikum eftir árásina, bar lögreglan þó kennsl á manninn í gegnum öryggismyndavélar og í kjölfar skýrslu frá vitni.

„En ég vissi ekki neitt og mér var ekki sagt neitt. Ekki einu sinni hver maðurinn væri né hvað hann héti. Að því komst ég ekki að fyrr en nokkrum árum síðar þegar málið var tekið fyrir dóm.“

Sem á litla Íslandi er vægast sagt mjög óþægileg tilfinning.

„Almennt myndi ég segja að mér gekk erfiðlega að fá upplýsingar nema ég virkilega þrýsti á að fá þær enda hef ég allan tímann verið dugleg í að hafa samband við alla aðila sem mér mögulega dettur í hug að ræða við, til að fá upplýsingar í þágu sjálfs míns sem þolanda,“ segir Kathryn.

Og í raun miklu meira til því þess má geta að Kathryn hafði samband við bæði Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra og Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrrum dómsmálaráðherra, á síðari stigum máls hennar.

Því það er svo margt sem er svo ótrúlega skrýtið í íslensku réttarkerfi í samanburði við víða erlendis.

 Í raun má segja að kerfið hér sé meira hannað til að verja rétt brotamanna frekar en þolendur.“

Kathryn segir furðulegt að á Íslandi fái þolendur ekki að sitja sín eigin réttarhöld. Það hafi verið óþægilegt að vita að inni í dómssal væri verið að tala um mjög persónuleg mál henni tengt og mikið óréttlæti í því fólgið að gerendur hafi rétt til að hlusta á allt sem þar fram fer, en þolendur ekki.Vísir/RAX

Réttur gerandans

Og nú erum við komin að þeim kafla, þar sem það fer loks að skína í gegn hversu ólíkt réttarkerfið á Íslandi virðist vera miðað við það sem við kannski teljum.

Fyrst tók reyndar við bið, sem flestir hafa heyrt um að oft sé á málum.

„Það var mjög erfið bið og ekki bætti Covid úr skák, því það tafði málið auðvitað enn meir.“

Kathryn fannst sérstaklega erfitt að fá engar upplýsingar um hvernig rannsókninni gengi.

„Ég fór að rannsaka málið til hlítar sjálf. Þar bjargaði það mér að kunna það vel á tæknina að ég gæti nýtt símann minn og upplýsingar úr honum til að rekja hreyfingarnar mínar og ferðir mínútu fyrir mínútu þetta umrædda kvöld. Þessar upplýsingar voru lykilatriði sem sönnunargögn síðar því frásögn gerandans var auðvitað þvert á það sem ég var að segja,“ segir Kathryn.

Því já; það að DNA hafi fundist á gerandanum var ekki nóg og það að Kathryn hafi gert allt rétt í kjölfar árásarinnar var ekki heldur nóg.

„Í svona málum er staðan í raun þannig að það er þolandans að sanna sekt gerandans en það sem verst er í því er að þolandinn fær ekki að taka þátt í réttarhöldunum.“

Ha?

„Jú sjáðu til: Ég var auðvitað kölluð til í réttarsalinn en það var sem vitni. Þetta þýðir að þegar ég loksins sat í réttarsal og andspænis árásarmanni mínum, sat ég þar sem vitni en ekki þátttakandi í málinu. Eftir að ég gaf mína skýrslu þar var mér gert að yfirgefa salinn,“ segir Kathryn og bætir við:

,,Sem var verulega óþægilegt því í marga klukkustundir vissi ég að inn í réttarsal væri fólk að tala um mig. Og ræða mjög persónuleg mál. Til dæmis að hlusta á sálfræðinginn minn lýsa því hversu hræðilegar afleiðingar árásin hefði haft á mig og mína líðan og svo framvegis. Allt þetta mátti gerandinn hlusta á, á meðan ég fékk ekki einu sinni að vera á staðnum.“

Annað sem Kathryn fannst verulega undarlegt var hversu mikinn rétt gerandi hefur til að fá allar upplýsingar strax og kæra hefur verið gefin út, en þolandinn ekki.

„Mjög margt í málinu hafði ég enga vitneskju um fyrr en málið var komið fyrir dóm. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að árásarmaðurinn hefði setið fyrir um mig þetta kvöld. Ég hafði ekki heldur fengið að sjá yfirlýsingarnar hans hjá lögreglunni en hann var löngu búinn að fá að sjá mína.“

Kathryn segist vera ein þeirra „heppnu.“ Því í hennar tilfelli hlaut gerandinn 2,5 árs dóm.

Og sat inni í 106 daga.

En það var þó ekki fyrr en löngu síðar.

Einu sinni var ég á leiðinni heim úr vinnunni og varð litið út um gluggann. Sá hann þá standa á gangstéttinni hinum megin við götuna. 

Nýdæmdur nauðgari, frjáls ferða sinna. 

Á sama tíma og ég í minni vanlíðan og ótta fraus og gat mig ekki hreyft, komst ekki heim því ég var of hrædd við að fara út.“

Erlendis eru nauðgarar oftast leiddir í handjárnum í fangelsi eftir að dómur er upp kveðinn Á Íslandi tryggir kerfið þeim hins vegar að þeir geti gengið lausir í nokkur ár og almennt hafa gerendur meiri rétt en þolendur.  Kathryn hefur því oft velt fyrir sér: Hvor þegninn er mikilvægari fyrir íslenskt samfélag: Hún eða nauðgarinn?Vísir/RAX

Hvaða land gerir svona?

Þegar við horfum á glæpaseríur í sjónvarpinu er birtingarmyndin sú að þegar viðkomandi gerandi hefur hlotið dóm, er viðkomandi leiddur út í handjárnum. Og fer síðan í fangelsi.

Á Íslandi er þessu alls ekki þannig farið.

„Þegar hann hlaut fyrsta dóminn spurði ég: Fer hann þá núna í fangelsi? En fékk þá það svar að Nei, það myndi nú ekki gerast strax því gerendur hafa rétt á að áfrýja til Landsréttar.“

Og í raun er alltaf hægt að spila aðeins á öll kerfi til að lengja í tíma. Til dæmis að áfrýja ekki fyrr en rétt áður en sá frestur rennur út. Og treysta síðan á að kerfið taki sinn langa tíma í að meta stöðuna.

Tæpum tveimur árum eftir að árásarmaðurinn hlaut fyrsta dóminn, var dómurinn staðfestur í Landsrétti.

„Aftur spurði ég þá: Fer hann þá í fangelsi núna? En fékk þá það svar Nei því hann á rétt á því að áfrýja til Hæstaréttar.“

Enn ein biðin tók við.

Og enn einu sinni þurfti Kathryn að lifa við það að fá engar upplýsingar. Nema hún hefði mikið fyrir því sjálf.

„Ég geri mér grein fyrir því að þar er ég í forréttindastöðu. Því margar konur, ég tala nú ekki um konur af erlendu bergi brotnu og búsettar á Íslandi, eru engan veginn í sömu stöðu og ég. Tala jafnvel ekki ensku né hafa þekkingu eða getu til þess að standa fastar á sínu og róa að því öllum árum að fá upplýsingar fyrir sína hönd og svo framvegis.“

Loks tilkynnti Hæstiréttur að málið yrði ekki tekið fyrir á æðsta dómstigi.

„Og þá spurði ég: Fer hann þá núna í fangelsi. En fékk þá það svar að Nei, núna hefði hann þrjá mánuði til að ganga frá sínum málum og svona. Það væri hans réttur áður en hann tæki út refsinguna,“ segir Kathryn og veltir upp spurningu:

„Ég velti fyrir mér hvort önnur ríki viti þetta. Því í raun þýðir þessi frestur að viðkomandi er svo frjáls ferða sinna að viðkomandi getur farið til útlanda ef hann kýs að gera það. Og ég velti fyrir mér hvað vinaþjóðum þætti að vita um það að Ísland passaði ekki upp á að nýdæmdir ofbeldismenn væru að heimsækja önnur lönd heim, svona rétt á meðan þeir eru að ganga frá sínum málum….“

Kathryn segir íslenskt réttarkerfi gerendavænt í samanburði við það sem þekkist erlendis. Þolendur fái ekki að vera þátttakendur í sínum eigin réttarhöldum, réttur til aðgengis upplýsinga er meiri hjá gerendum en þolendum og hér á landi fá þolendur hvorki stuðningsfulltrúa né öryggisplan (e. safeguarding plan).Vísir/RAX

Vondi maðurinn sem meiddi mömmu

Að verða fyrir svona áfalli er mjög flókið ferli að vinna úr. Sem öll fjölskyldan verður fyrir barðinu á.

Að þurfa í ofanálag að bíða í angist, kvíða og ótta í þrjú og hálft ár eftir að árásarmaðurinn færi í fangelsi, hafði líka slæm áhrif.

„Ég hef allan tímann verið mjög hreinskilin við börnin okkar. Því auðvitað komu erfiðir og dimmir dagar og þeir koma enn. Því þótt hann hafi aðeins setið inni í 106 daga geri ég mér grein fyrir að ég verð að vinna úr þessu áfalli alla ævi,“ segir Kathryn og bætir við:

Ég sagði börnunum að vondur maður hefði meitt mömmu og það væri alls ekki þeim að kenna eða neitt. 

Þannig útskýrði ég hvers vegna þau eru að sjá mömmu sína fara í gegnum dimman dal og erfiða tíma.“

Kathryn segir að í Bretlandi sé fyrirkomulagið þannig að þolendur kynferðisbrota fá ákveðinn stuðningsfulltrúa sem tengilið hjá lögreglunni og sá aðili sjái um samskipti við allar helstu stofnanir eða aðila tengt þolandanum.

Þolendur fá líka það sem kallist öryggisplan (e. safeguarding plan) áður en gerendur eru látnir lausir.

„Ég leitaði til margra aðila til að reyna að fá upplýsingar um það hvernig ég gæti varið mig gagnvart mínum geranda en fékk alls staðar þau svör að á Íslandi væri ekki til staðar svona kerfi. Viðkomandi hefði þó ekki leyfi til að hafa samband við mig með neinum hætti, ekki heldur í síma eða á internetinu,“ segir Kathryn og hristir höfuðið:

„Á það að vernda mig að gerandinn má ekki senda mér vinabeiðni á Facebook?“

Og Kathryn var svo sannarlega í erfiðri stöðu. Því fjölskyldan býr rétt hjá áfangaheimilinu Vernd, sem margir fanga gista gjarnan á síðasta hluta afplánunar. Þar hafa þeir heimild til útivistar á daginn sem í tilfelli Kathryn þýddi að árásarmaðurinn var líklegur til að vera kominn nánast heim að dyrum hjá henni.

„Ég meira að segja sendi tölvupóst á Pál Winkel fangelsismálastjóra og bað um öryggisplan fyrir mig. En fékk það svar hjá honum eins og öðrum að á Íslandi væri slík plön ekki til," en bætir við að Páll hafi tengt hana áfram við ýmsa aðila og að í gegnum allt þetta ferli, hafi hún smátt og smátt byggt upp ákveðið tengslanet innan kerfisins.

Árið 2023 fékk Kathryn þær fregnir að vísa ætti gerandanum hennar úr landi. Eitthvað sem henni hafði aldrei órað fyrir að gæti gerst, enda taldi hún viðkomandi íslenskan ríkisborgara.

„„Hann býr samt enn á Íslandi. Því nú á hann rétt á að áfrýja þessari brottvísun og ég veit að minnsta kosti ekki til þess að það sé búið að taka þá áfrýjun fyrir.“ 

Auðvitað hefur allt lífið hjá Swiftie-fjölskyldunni orðið fyrir áhrifum af árásinni á Kathryn; sem sjálf hefur farið í gegnum dimman dal og margar erfiðar stundir. Sem hún gerir enn. Til útskýringarnar hefur hún sagt börnunum að vondur maður hafi meitt mömmu. 

Góðu ráðin: Vöxturinn

Eftir að hafa hlustað á sögu Kathryn er með ólíkindum að horfa til þess hvað hún hefur áorkað miklu á síðustu árum.

Að stofna fyrirtæki á Íslandi. Standa að rannsóknum á Íslandi, meira að segja rannsókn sem Atvinnulífið á Vísi hefur fjallað um. Að taka virkan þátt í félagsstarfi FKA, þar sem Kathryn stóð meðal annars fyrir því að stofna nefnd fyrir Nýja Íslendinga.

En kannski að þetta sé engin tilviljun…. eða hvað?

„Svona áfalli fylgir áfallastreituröskun. Sem á ensku skilgreinist sem Post Trauma Disorder. Þessi áfallastreituröskun er vissulega enn til staðar hjá mér,“ segir Kathryn og það er auðheyrt að erfiðu stundirnar hafa verið margar eftir árásina.

„En það er líka til fyrirbæri sem heitir Post Trauma Growth sem þýðir að í kjölfar áfalla getur fólk líka vaxið og dafnað á jákvæðan hátt, þar sem reynslan úr áfallinu er nýtt til að skapa ný tækifæri og það er það sem ég gerði,“ segir Kathryn og skýrir betur út:

Fyrirtækið mitt Geko er dæmi um minn vöxt. 

Því eftir árásina kom að þeim tíma sem ég vildi ná aftur stjórn á mínu lífi.

 Þó þannig að ég myndi hlúa að sjálfri mér í því áfalli og þeirri áfallastreituröskun sem fylgir ofbeldi eins og nauðgun er.“

Kathryn segist til dæmis hafa áttað sig á því að með því að vera sjálfstæður atvinnurekandi gæti hún mögulega tryggt sér þann sveigjanleika sem hún þyrfti um tíma.

„Því þannig gæti ég mögulega tekið mér frí á þeim dögum eða hætt fyrr, ef það væru dagar sem væru mér erfiðir.“

Annað var líka að finna sinn tilgang og hafa markmið.

Efri mynd - Gekoteymið: Ania, Kathryn og Hulda í Geko. Fyrirtækis sem nú þegar hefur aðstoðað hundruði einstaklinga að finna spennandi starfstækifæri. Neðri mynd - UGrowteymið: Valenttina, Veronica og Kathryn, nýtt félag sem ætlar sér líka stóra hluti.

Kathryn skellihlær samt þegar hún rifjar upp stofndag Geko. Sem var hlaupársdaginn 29. febrúar árið 2020.

„Það var svo sem ekkert rómantískt við þá stund því þegar ég opnaði vefsíðuna sat ég með lúsar-sjampó í hárinu því það hafði komið upp lús í skólanum hjá stelpunum. Þannig sat ég fyrir framan tölvuna, ýtti á Enter og Geko varð til.“

Þremur mánuðum eftir stofnun gat Kathryn ráðið fyrsta starfsmanninn og farið að greiða sjálfri sér laun.

„Það var góð tilfinning að átta mig á því að á Íslandi væri ég greinilega að vinna mig upp í því orðspori að fólk treystir mér til að vinna fyrir það og þjónusta. Þjónustan okkar hefur auðvitað vaxið og orðið fjölbreyttari með árunum en síðustu misseri ef ég sjálf sérhæft mig svolítið í því að koma að mannauðsmálum fyrirtækja sem eru í vexti en hafa kannski ekki enn burði til að ráða mannauðsstjóra. Ég brenn fyrir þessu og bý líka að svo góðri reynslu í uppbyggingu teyma erlendis frá.“

Á síðustu fimm árum hefur Geko starfað með um 120 fyrirtækjum og komið að uppbyggingu teyma hundruða starfsmanna. Kathryn er líka meðstofnandi nýs félags, UGROW, sem sérhæfir sig í að finna starfsfólk fyrir fyrirtæki í þjónustugreinum ein og ferðaþónustu eða smásöluverslun. 

Kathryn er með stóra drauma og ætlar sér enn fleiri hluti: Vöxtur Geko er þar efst á blaði og auðvitað uppbygging á nýja félaginu UGROW þannig að það verði sjálfbært.

Áfallastreituröskunin er þó ekki horfin.

„Ég geri samt margt til að sporna við henni og vinna markvisst að því að styrkja sjálfan mig. Hef alltaf þrjár bækur við höndina: Eina sem er í Kindle, oft glæpasaga til að lesa á kvöldin. Síðan bók á stofuborðinu sem oftast er einhvers konar fræðsla eða uppbyggilegt efni, oft vinnutengt. Og síðan hlusta ég á hljóðbók sem ég get þá nýtt, þegar ég hef ekki færi á að vera að lesa.“

Nokkur önnur atriði eru nefnd, svo sem netbolti og sund, sem Kathryn segir hjálpa mikið.

Ég legg áherslu á að vera umkringd jákvæðu og góðu fólki. 

Mér finnst ég líka hafa styrkst í því að hafa trú á sjálfri mér og hef áttað mig betur á þeirri seiglu sem ég bý yfir. 

Ég hef líka lært að gefa sjálfri mér svigrúm þegar það koma þannig stundir að ég þarf á því að halda að halda mér til hlés.“

Kathryn hefur nýtt sér áfallið sem hún varð fyrir til að vaxa og segir fyrirtækið Geko stóran part af því (Post Trauma Growth). Kathryn vill berjast fyrir því að íslenskt réttarkerfi verði þolendavænna og nær því sem þekkist víða erlendis.Vísir/RAX

„Að vinna að uppbyggingu Geko hefur hjálpað mér mikið og er hluti af þeim vexti sem talað er um að hið svo kallaða Post-Traumatic Growth feli í sér. Með stofnum fyrirtækisins næ ég stjórn á lífi mínu þegar mér fannst kerfið hafa brugðist mér. Ég er líka að vinna að því að hjálpa fólki og fyrirtækjum með eitthvað sem mikið virði er í. Þannig hefur Geko verið stór partur af því að umbreyta sársaukanum úr áfallinu yfir í að vera sterkur „survivor.“ Sem meðal annars læt ekki þagga í mér lengur,“ segir Kathryn og bætir við:

„Á Íslandi er nefnilega líka mjög margt gott og jafnvel betra en þekkist erlendis. Þar nefni ég sérstaklega samfélag þolenda. Að hitta aðrar konur sem hafa lent í sambærilegu áfalli og ég er eitthvað sem er sterkt samfélag til staðar hér en ég er ekkert svo viss um að ég hefði fundið svo auðveldlega í borg eins og London.“

Kathryn segir það samfélag hafa orðið fyrir miklum missi þegar ein virtasta og dáðasta baráttukona hópsins féll frá, Ólöf Tara Harðardóttir. Mikilvægt sé að halda minningu hennar á lofti með því að berjast áfram fyrir hönd þolenda.

„Að missa Ólöfu Töru var samfélagi okkar þolenda mjög stórt og mikið áfall. Ekki að ég hafi þekkt hana mjög náið en ég þekkti hana þó og mun til dæmis hafa í heiðri markmið sem við settum okkur fyrir næstu Druslugöngu; að beina sjónum okkar sérstaklega að þolendum kynferðisofbeldis á Íslandi sem koma erlendis frá,“ segir Kathryn og útskýrir að þessi hópur sé of viðkvæmari og einangraðri en aðrir hópar.

„Nú er til dæmis komin ný ríkisstjórn,“ segir Kathryn og auðheyrt er að hún vonast til breytinga með nýju fólki.

Í fyrra var Kathryn greind með sjálfsofnæmissjúkdóminn Hashimoto's Disease; sjúkdóm sem oft er afleiðing áfalla. Kathryn segir þennan sjúkdóm kominn til að vera og enn eitt dæmið um það sem eigi eftir að fylgja henni út ævina eftir hið örlagaríka kvöld haustið 2019. En hún vill berjast:

Þögnin er almennt besti vinur gerenda. 

En ég hef ákveðið að neita að þegja.

Þess vegna vill ég leggja mitt af mörkum til að berjast fyrir því að umbætur verði gerðar á kerfinu á Íslandi þannig að kerfið verði þolendavænna.“


Tengdar fréttir

Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“

„Það var Egyptaland sem skilaði mér heim í dálítilli rúst. Ég einfaldlega missti trúna á mannkyninu og hef aldrei kært mig um að hafa það eftir sem ég sá og heyrði þar. En get sagt að hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún rifjar upp tímann sem hún starfaði með Læknum án landamæra í Egyptalandi.

„Fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín“

„Ég er fædd og uppalin í þessari borg og áður en Rússarnir komu, hafði ég ekki í eitt augnablik velt því fyrir mér að flytja þaðan. Enda var ég gift, hamingjusöm, átti fjögurra ára strák, er vel menntuð og var í mjög góðu starfi hjá stóru fyrirtæki,“ segir Yulia Zhatkina flóttakona frá Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.