Fótbolti

Mourin­ho þóttist sofna á miðjum blaða­manna­fundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho þykist hér sofna á blaðamannafundinum í gærkvöldi.
Jose Mourinho þykist hér sofna á blaðamannafundinum í gærkvöldi. Skjámynd/@footballontnt ·

Jose Mourinho horfði upp á sína menn í Fenerbahce steinliggja 3-1 á heimavelli á móti Rangers í gærkvöldi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Mourinho varaði þó Skotana við eftir leik að þeir þyrftu að róa sig aðeins niður því þetta væri ekki búið. Seinni leikurinn fer fram í Skotlandi í næstu viku.

„Þeir þurfa að róa sig aðeins. Þetta einvígi er ekki búið. Fenerbahce var slakt á öllum stöðum í kvöld. Þeir gerðu ótrúleg, ótrúleg mistök,“ sagði Jose Mourinho.

„Skoska liðið kom mér samt ekki á óvart. Þeir vörðust mjög vel og eyddu svo tímanum með tuttugu meiðslum. Jack Butland í markinu tók sér líka þrjátíu sekúndur í hvert skipti sem hann fékk boltann í hendurnar,“ sagði Mourinho.

Mourinho reyndi þó að horfa á jákvæðu hlutina. „Þetta voru samt góð úrslit miðað við að þetta hefði getað orðið enn stærra tap,“ sagði Mourinho.

„Að mínu mati áttum við þessi úrslit skilið sem refsingu fyrir það hvernig við spiluðum. En ef einhver ætlar að spyrja mig um það hvort að þetta sé búið þá er þetta ekki búið,“ sagði Mourinho.

„Ég ráðlegg þeim að fagna þessu ekki of mikið því við eigum eftir að mætast aftur í seinni leiknum í næstu viku. Ef þeir fagna eftir seinni leikinn þá mun ég óska þeim til hamingju en nú þurfa þeir að róa sig aðeins því þetta er ekki búið,“ sagði Mourinho.

Mourinho fékk eina mjög langa spurningu á tyrknesku á blaðamannafundinum sem þurfti síðan að þýða fyrir hann. Hann þóttist því sofna á miðjum blaðamannafundi eins og sjá má hér fyrir neðan. Blaðamaðurinn fékk ekkert svar. 

„Þetta er of mikið fyrir hausinn minn núna. Ég er of þreyttur til að hlusta á svona spurningar,“ sagði Mourinho en blaðamaðurinn vildi fá svar um taktíska uppstillingu Portúgalans í leiknum en spurningin var vissulega mjög löng og ítarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×