Handbolti

Gunnar kveður og Stefán tekur við

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Magnússon hefur komið Aftureldingu upp á hærra stig og meðal annars gert liðið að bikarmeistara árið 2023.
Gunnar Magnússon hefur komið Aftureldingu upp á hærra stig og meðal annars gert liðið að bikarmeistara árið 2023. VÍSIR/VILHELM

Gunnar Magnússon hættir í vor sem þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handbolta, eftir fimm leiktíðir í Mosfellsbænum. Við starfi hans tekur núverandi aðstoðarmaður hans, Stefán Árnason.

Stefán hefur verið aðstoðarþjálfari Aftureldingar undanfarin þrjú ár ásamt því að þjálfa þriðja flokk karla hjá félaginu en sá flokkur varð Íslandsmeistari í fyrravor.

Stefán mun jafnframt vera yfirþjálfari yngri flokka. Í tilkynningu Aftureldingar segir að Stefán hafi verið afar mikilvægur hlekkur í afreksstarfi yngri flokka félagsins og stutt vel við þróun ungra og efnilegra leikmanna í fyrstu skrefunum í meistaraflokki.

Stefán Árnason hefur verið þjálfari um langt árabil en síðustu ár verið aðstoðarþjálfari Aftureldingar og þjálfað í yngri flokkum.vísir/Viktor Freyr

Gunnar og Stefán fögnuðu bikarmeistaratitli með Aftureldingu árið 2023 þegar bundinn var endir á 24 ára bið eftir titli í Mosfellsbænum. Þá lék liðið til úrslita gegn FH um Íslandsmeistaratitilinn í fyrravor þegar mikil stemning myndaðist og áhorfendamet var sett að Varmá með komu um 1.700 áhorfenda.

Í tilkynningu Aftureldingar segir enda að í stjórnartíð Gunnars hafi starfsemi handknattleiksdeildar félagsins verið lyft upp á nýtt stig og liðið komist í þá stöðu að berjast um alla titla sem í boði séu.

Áður en að lyklaskiptunum kemur munu þeir Gunnar og Stefán ljúka yfirstandandi leiktíð saman en eftir að hafa fallið út í undanúrslitum Powerade-bikarsins í síðustu viku keppir Afturelding nú um deildarmeistaratitilinn og er tveimur stigum á eftir toppliði FH. Úrslitakeppnin bíður svo í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×