Á laugardaginn birti hann sautján mínútna myndband þar sem hann tilkynnir framboð sitt og segist geta bjargað borginni frá því stjórnleysi sem hann segir að hafi verið við lýði undanfarin ár.
Eric Adams, núverandi borgarstjóri, hefur átt á brattann að sækja vegna kærumála er varða mútur, fjársvik og fyrir að þiggja ólöglega fé frá erlendum aðilum. Hann sækist þó eftir að sitja annað tímabil en hefur tapað miklum vinsældum vegna málsins.
Cuomo segir meðal annars að heimilisleysi fólks með geðsjúkdóma, hættulegt neðanjarðarlestarkerfi, ofbeldi, tóm verslunarrými og veggjakrot geri borgina ógnandi. Hann kennir þar um pólitískum leiðtogum borgarinnar sem hafi ekki tekið réttar ákvarðanir til að gera borgina örugga, lífvænlega og viðhaldið henni sem þeirri stórkostlegu borg sem hún hafi alltaf verið.
Hann telur að hann sé rétti maður til að halda jafnvægi á milli þess að vinna með forseta Bandaríkjanna, repúblikanum Donald Trump, og standa uppi í hárinu á honum þegar þess þurfi.
Borgarstjórnarkosningar í New York verða haldnar þann 4. nóvember 2025 og verða forkosningar haldnar 24. júní.