Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra opnaði Háskóladaginn formlega í Háskólanum í Reykjavík. Í framhaldinu skoðaði hann þær námsleiðir sem í boði eru hjá háskólunum þremur í Reykjavík, Háskólanum í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands.
„Það er mikilvægast að velja sér nám sem er á sviði sem þið hafið áhuga á og ykkur þykir spennandi. Því að það er ótrúlega mikilvægt að það sé líka gaman,“ sagði Logi í opnunarræðu sinni. Hann biðlaði til viðstaddra að velta sér ekki of mikið upp úr því við hvað þeir muni starfa að háskólanámi loknu.
„Bankastjóri Kvikubanka er held ég með BA í bókmenntum, áhrifavaldurinn Linda Ben er lífefnafræðingur, Stebbi Hilmars er stjórnmálafræðingur og Mr. Bean er rafmagnsverkfræðingur. Þannig að ég lofa ykkur því að sama hvað þið gerið, nám mun alltaf nýtast ykkur í framtíðinni.“
Á háskólakynningunum kenndi ýmissa grasa, en þeir sem freistuðu þess að kynna sér nám í sagnfræði við Háskóla Íslands fengu kynningu á námsbrautinni frá sjálfum Guðna Th. Jóhannessyni fyrrverandi forseta Íslands en hann starfar sem prófessor við deildina.



