Handbolti

„Settum í sjötta gír í seinni hálf­leik“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Haukum með níu mörk. 
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Haukum með níu mörk.  Vísir/Vilhelm

Elín Klara Þorkelsdóttir dró vagninn í sóknarleik Hauka þegar liðið tryggði sér farseðil í úrslitaleik Powerade-bikars kvenna í handbolta með sigri sínum gegn Gróttu í undanúrslitum keppninnar að Ásvöllum í kvöld. 

„Það var frábær varnarleikur í seinni háfleik sem skilaði þessum sigri í höfn. Við settum í sjötta gír í seinni hálfleik og keyrðum yfir þær. Þær náðu að halda tempóinu niðri framan af leik en við þegar við náðum að auka hraðann í okkar aðgerðum þá sigldum við fram úr,“ sagði Elín Klara sem skoraði níu mörk í leiknum. 

„Við áttum í smá erfiðleikum með að þær spiluðu 7 á 6 í fyrri hálfeik og það hélt þeim inn í leiknum. Við náðum hins vegar að finna lausnir á því í hálfleik og lokuðum á það í seinni hálfleik. Heilt yfir bara flottur leikur og við erum komnar í úrslit sem er það sem öllu máli skiptir,“ sagði leikstjórnandinn enn fremur. 

Haukar er nýkomnir úr svekkelsi að detta út í átta liða úrslitum Evrópubikarsins. Elín Klara segir þá leiki bara hafa hjálpað Haukaliðinu: „Það er engin þreyta í leikmannahópnum eftir Evrópuleikinn. Sú reynsla að spila hörkuleik við mjög gott lið í þeirri keppni hjálpaði okkur bara frekar í þessu verkefni,“ sagði hún um stöðuna á Haukaliðinu. 

„Mér líst bara mjög vel á að mæta Fram. Þetta eru skemmtilegustu leikirnir að spila við eitt af bestu liðum landsins þar sem allt er undir. Við mætum dýrvitlausar til leiks og það er gott að við munum taka á móti þeim hér að Ásvöllum,“ segir Elín Klara um úrslitaleikinn við Fram sem fram fer á laugardaginn kemur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×