Stafford gekk í raðir Rams árið 2021 eftir að hafa spilað með Detroit Lions frá 2009 til 2020. Á sínu fyrsta ári með Rams leiddi hann liðið til sigurs í Ofurskálinni.
Árið 2022 skrifaði hann undir fjögurra ára framlengingu á samningi sínum við Rams upp á litlar 160 milljónir Bandaríkjadala eða næstum 22 og hálfan milljarð íslenskra króna á núverandi gengi.
Síðan Stafford fór alla leið með Rams hefur liðið ekki verið nálægt því að komast í Ofurskálina. Á leiktíðinni sem lauk nú fyrr í febrúar töpuðu Stafford og félagar fyrir verðandi meisturum í Philadelphia Eagles.
Það virðist því sem Stafford sé að hugsa sér til hreyfings og þrátt fyrir aldur er hann heldur betur eftirsóttur. The Athletic greinir frá að bæði New York Giants og Las Vegas Raiders séu meðal þeirra liða sem séu að íhuga að sækja leikstjórnandann síunga.
Hvað sem verður þá virðist ljóst að Stafford muni ekki spila heimaleiki sína í Los Angeles á komandi leiktíð. Stóra spurningin er hvaða lið býður best.