Íslenski boltinn

Arnór Smára hættir sem yfir­maður knatt­spyrnumála hjá Val

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Smárason átti farsælan feril sem leikmaður. Hans fyrsta starf eftir að skórnir fóru á hilluna var á Hlíðarenda en því er nú lokið þar sem hann flytur af landi brott.
Arnór Smárason átti farsælan feril sem leikmaður. Hans fyrsta starf eftir að skórnir fóru á hilluna var á Hlíðarenda en því er nú lokið þar sem hann flytur af landi brott. Valur

Arnór Smárason mun segja starfi sínu sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Val lausu um næstu mánaðarmót. Ástæðan eru flutningar til Svíþjóðar. Hann mun hins vegar starfa áfram sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Val. Þar segir: 

„Arnór Smárason sem ráðinn var yfirmaður knattspyrnumála hjá Val í lok árs mun taka að sér nýtt hlutverk nú um mánaðarmótin.“

Arnór á sænska konu og því hefur verið ákveðið að fjölskyldan flytji þangað. Hann mun því ekki geta sinnt  „því mikilvæga og krefjandi starfi sem það er að vera yfirmaður knattspyrnumála hjá félagi eins og Val.“

Í tilkynningunni segir einnig að Arnór verði tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar og mun áfram vinna við innleiðingu á nýrri stefnu í samvinnu við sænska ráðgjafafyrirtækið GoalUnit.

„Arnór hefur komið inn af miklum krafti og samstarfið gengið vel … Auðvitað hefðum við viljað hafa hann áfram hjá okkur en við sýnum þessari ákvörðun hans fullan skilning. Fjölskyldan á alltaf að vera í fyrsta sæti,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals að endingu í tilkynningu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×