Guðbjörg Norðfjörð hættir sem formaður KKÍ á komandi ársþingi en hún tók við af Hannesi S. Jónssyni á miðju kjörtímabili þegar hann steig að fullu yfir í starf framkvæmdastjóra sambandsins.
Kristinn er vel þekktur innan körfuboltafjölskyldunnar eftir áratuga starf fyrir hreyfinguna og er handhafi gullmerkis KKÍ frá árinu 2003.
Kristinn var stjórnarmaður KKÍ í fimm ár, gjaldkeri í tvö ar og framkvæmdastjóri sambandsins í tvö ár.
Þekktastur er hann þó í körfuboltanum fyrir aðkomu sína að dómgæslu.
Kristinn dæmdi yfir fjögur hundruð leiki í úrvalsdeild karla, fjölmarga úrslitaleiki, hann varð alþjóðlegur dómari aðeins 22 ára gamal og dæmdi yfir fimmtíu FIBA-leiki á dómaraferlinum.
Hann sat líka í mótanefnd KKÍ í fimm ár og í dómaranefnd KKÍ með hléum í níu ár.
Undanfarin sautján ár hefur hann ekki komið að íslenskum körfubolta þar sem hann hefur verið fjármálastjóri Samskipa samstæðunnar og staðsettur í Rotterdam í Hollandi.
Kristinn er nú alkominn til Íslands og vill snúa aftur í körfuboltann.
Framboðsfrestur til formannskjörs rennur út á föstudaginn en ársþing KKÍ fer síðan fram 15. mars næstkomandi.