Innherji

Boðar bætta arð­semi Play með út­leigu á vélum en úti­lokar ekki hluta­fjáraukningu

Hörður Ægisson skrifar
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir að fyrirvaralaus áritun frá endurskoðendum í ársreikningi varðandi rekstrarhæfi félagsins taki ekki með í reikninginn jákvæð áhrif af nýju viðskiptalíkani. Þótt lausafjárstaða Play hafi styrkst milli ára þá segir forstjórinn ekki útiloka að ef markaðsaðstæður breytist komi til álita að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir að fyrirvaralaus áritun frá endurskoðendum í ársreikningi varðandi rekstrarhæfi félagsins taki ekki með í reikninginn jákvæð áhrif af nýju viðskiptalíkani. Þótt lausafjárstaða Play hafi styrkst milli ára þá segir forstjórinn ekki útiloka að ef markaðsaðstæður breytist komi til álita að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess. Einar Árnason

Rekstrarafkoma Play batnaði nokkuð á fjórða ársfjórðungi 2024, meðal annars vegna hærri meðaltekna og aðhaldsaðgerða, en niðurfærsla á skattalegri inneign veldur því að heildartapið jókst talsvert milli ára og eigið fé flugfélagsins er því neikvætt um áramótin. Forstjóri Play útilokar ekki hlutafjáraukningu á næstunni en segir hins vegar rekstrarhorfurnar hafa tekið miklum framförum og nýtt samkomulag um leigu á þremur vélum til ársins 2027 eigi eftir að skila félaginu fyrirsjáanleika og arðsemi í samræmi við áður útgefnar áætlanir.

Í uppgjöri sem Play birti núna síðdegis eftir lokun markaða kemur fram að rekstrarafkoman fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIT) hafi verið neikvæð um 15,3 milljónir dala, jafnvirði 2,2 milljarða króna, og minnkaði rekstrartapið um liðlega 17 prósent frá sama fjórðungi árið áður.

Færri flugferðir vegna breyttra áherslna á viðskiptamódeli félagsins þýddi að rekstrartekjurnar minnkuðu um ríflega tíu prósent á síðasta fjórðungi ársins 2024 og voru samtals 59 milljónir dala. Á sama tíma dróst rekstrarkostnaðurinn saman um tíu milljónir dala og var rúmlega 80 milljónir dala á fjórðungnum.

Ég vil samt ekki útiloka að ef markaðsaðstæður breytast að það komi til álita að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess.

Þrátt fyrir að rekstrarafkoman hafi skánað á síðasta fjórðungi ársins 2024, sem má rekja til betri sætanýtingar, hagræðingaraðgerðum og hækkandi meðaltekjum, þá jókst rekstrartapið fyrir árið í heild sinni frá 2023. Þannig var EBIT neikvætt um 30,5 milljónir dala í fyrra borið saman við rekstrartap upp á 20,7 milljónir dala á árinu 2023, en lakari afkoma er sögð einkum skýrast vegna örlítið lægri einingatekna.

Meiri fyrirsjáanleiki með langtímaleigu á þremur vélum

Lausafjárstaða Play var hins vegar aðeins sterkari í lok ársins miðað við árið 2023 og námu þeir fjármunir – bæði bundnir og óbundnir – 23,6 milljónum dala.

„Lausafjárstaðan hefur styrkst frá sama tíma á síðasta ári og miklar framfarir orðið í rekstrarhorfum félagsins. Ég vil samt ekki útiloka að ef markaðsaðstæður breytast að það komi til álita að auka hlutafé í félaginu eða dótturfélagi þess,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, við Innherja.

Síðast jók Play hlutafé sitt um liðlega 4,5 milljarða í aprílmánuði í fyrra í aðdraganda skráningar félagsins á Aðalmarkað.

Einar Örn, sem er jafnframt stærsti hluthafi flugfélagsins ásamt tengdum aðilum, bendir á að með nýju samkomulagi sem skrifað hefur verið undir um langtímaleigu á þremur vélum til tæplega þriggja ára, sjái stjórnendur félagsins fram á mun meiri fyrirsjáanleika í rekstri þess.

„Verkefnið mun skila félaginu arðsemi í samræmi við það sem áður hefur verið gefið til kynna og færir Play afar stöðugan og jákvæðan rekstur í þessum hluta starfseminnar. Þetta er stórt skref sem við stígum í átt að því að uppfylla það sem höfðum áður kynnt sem nýtt viðskiptalíkan Play með ríkari áherslu á sólarlandaáfangastaði,“ segir Einar Örn, en félagið greindi frá þeim breytingum í október í fyrra ásamt því að ætla að sækja um flugrekstrarleyfi í Möltu.

Play var með tíu vélar í rekstri á árinu 2024 en með hinum nýja samningi um langtímaleigu þá minnkar flugflotinn í sjö vélar. 

„Það sjást skýr merki þess í fjórða ársfjórðungi að nýja líkanið sé farið að skila bættum árangri. Breyttar áherslur í leiðakerfinu eru farnar að skila hærri tekjum og betri afkomu,“ útskýrir Einar og bætir við að áframhaldandi bættrar afkomu sé að vænta á árinu 2025.

Eigið fé neikvætt um fjóra milljarða vegna afskriftar á skattainneign

Í uppgjörstilkynningu Play kemur fram að reiknað sé með því að afkoman á fyrsta fjórðungi á þessu ári verði svipuð og í fyrra – þá var ríflega 20 milljóna dala rekstrartap – en bent á að páskarnir séu á öðrum ársfjórðungi í þetta sinn. Þá segir að í framhaldinu sé búist við betri rekstrarniðurstöðu á öllum öðrum ársfjórðungum 2025. 

Play vekur athygli á því í tilkynningunni að líkt og á síðasta ári þá hafa endurskoðendur gefið út fyrirvaralausa áritun í ársreikningi en þó komið með ábendingu um rekstrarhæfi félagsins. Einar Örn segir enn ekki hægt að taka jákvæð áhrif nýs viðskiptalíkans með í reikninginn við endurskoðun á ársreikningi félagsins, og því sé ábendingin gerð.

„Áritun endurskoðandans er fyrirvaralaus en hann kemur þarna með ábendingu þar sem í skýrslu stjórnar er þess getið að ef aðstæður þróast á verri veg, þá sé ekki hægt að útiloka að félagið styrki fjárhaginn með útgáfu hlutafjár eða öðrum hætti. Endurskoðendur vilja þarna benda lesendum reikningsins á þetta,“ útskýrir forstjórinn.

Heildartap félagsins á árinu 2024, sem nam 66 milljónum dala, er mun hærra en rekstrartapið, sem nam sem fyrr segir 30,5 milljónum dala. Það er vegna áðurnefndrar afskriftar á skattalegri inneign félagsins í bókhaldi. Þessi niðurfærsla hefur veruleg áhrif á eigið fé félagsins, sem var í lok árs 2024 neikvætt um 33 milljónir dala, en þar af eru 24,1 milljónir dala vegna skattalegu niðurfærslunnar.

„Þetta er varfærin nálgun af okkar hálfu sem er viðhöfð vegna þess að það þykir ekki lengur óvéfengjanlegt að félagið nái að nýta sér allt hið skattalega tap sem hefur safnast upp. Þetta hefur ekkert að gera með rekstur félagsins, sjóðstöðu eða sjóðstreymi þess, fjárhag eða framtíð að neinu leyti. Staða félagsins er sterk og þessi aðgerð er einungis merki um varfærið og ábyrgt uppgjör. Hér þarf ég líka að taka það fram að það er mjög algengt að flugfélög séu með neikvætt eigið fé. Til dæmis hafa flugfélög á borð við Wizz air, American Airlines, Delta og Air Canada öll á síðustu árum verið með neikvætt eigið fé en engu að síður staðið undir stöðugum flugrekstri,” undirstrikar Einar Örn.

Þetta er varfærin nálgun af okkar hálfu sem er viðhöfð vegna þess að það þykir ekki lengur óvéfengjanlegt að félagið nái að nýta sér allt hið skattalega tap sem hefur safnast upp.

Spurður af hverju EBIT-tapið hafi hins vegar aukist um liðlega tíu milljónir dala á árinu 2024 í heild sinni þá rifjar Einar Örn upp að félagið hafi áður gefið út að það yrði niðurstaðan.

„Það var margt sem vann gegn okkur sem hafði áhrif á söluna, til dæmis Grindavíkureldar og aukin samkeppni yfir Atlantshafið. Það sést hins vegar glögglega að viðsnúningurinn er hafinn þar sem afkoman á síðasta ársfjórðungi ársins er mun betri en árið á undan og einingatekjur hækkað mikið með aukinni áherslu á sólarlandaferðir.“

Með áherslu Play á sólarlandaáfangastaði samhliða því að verið að draga úr öllu tengiflugi þess milli Evrópu og Bandaríkjanna þá jókst fjöldi Íslendinga sem flaug með flugfélaginu um ríflega 17 prósent – og voru þeir samtals 477 þúsund talsins.

Fyrir árið 2024 í heild námu tekjur Play samtals 292,2 milljónum dala og hækkuðu ríflega tíu milljónir dala milli ára, einkum vegna meira framboðs. Þá jukust hliðartekjurnar um tæplega átta milljónir dala og voru 90,3 milljónir dala í fyrra.

Kostnaður á hvern sætiskílómetra hækkar lítillega

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK), mælikvarði sem mjög er litið til í rekstri lággjaldaflugfélega, var 6,1 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi, borið saman við 6,0 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Fyrir árið 2024 var CASK um 5,6 Bandaríkjasent og stóð í stað frá fyrra ári. Sé eldsneytisþróun undanskilin þá var kostnaðurinn á hvern framboðinn sætiskílómetra (Ex-Fuel CASK) var 4,4 Bandaríkjasent á fjórða ársfjórðungi 2024, samanborið við 4,2 Bandaríkjasent á sama fjórðungi 2023. Kostnaðurinn var á sama mælikvarða 4,0 Bandaríkjasent fyrir árið 2024 í heild sinni, samanborið við 3,8 Bandaríkjasent árið á undan.

Farþegatekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (RASK) á fjórða ársfjórðungi jukust um 17 prósent á milli ára, vegna hærra meðalverðs og betri sætanýtingar, og voru 4,8 Bandaríkjacent. Sé litið á allt árið í fyrra stóð þessi mælikvarði hins vegar nánast í stað.

Ásamt Einari Erni eru stærstu hluthafar Play lífeyrissjóðurinn Birta, Stoðir fjárfestingafélag, félög í eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarmanns í Play, og sjóðir í stýringu Íslandssjóða. Hlutabréfaverð félagsins er núna rétt yfir ein króna á hlut – til samanburðar var áskriftargengið í síðasta útboði fyrir nærri einu ári á genginu 4,5 krónur – sem jafngildir markaðsvirði upp á um 1,9 milljarða.


Tengdar fréttir

Ó­ljóst hvort breytingarnar bjargi rekstri Play

Sérfræðingur með áratuga reynslu úr flugmálaheiminum segir erfitt að segja til um hvort að umfangsmiklar breytingar á rekstri flugfélagsins Play muni koma til með að bjarga rekstri félagsins og tekur fram að vendingarnar komi honum ekki á óvart. Tíminn muni leiða í ljós hvort að Play neyðist til að ráðast í uppsagnir. Gengi bréfa í félaginu hefur fallið um tuttugu prósent í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×