Körfubolti

Fé­lag Martins tekur vel á móti ís­lenska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlin í EuroLeague í vetur.
Martin Hermannsson í leik með Alba Berlin í EuroLeague í vetur. Getty/Federico Zovadelli

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er komið saman til að undirbúa sig fyrir tvo gríðarlega mikilvæga leiki í undankeppni Evrópumótsins. Þetta eru leikir þar sem íslensku strákarnir geta tryggt sig inn á Eurobasket 2025.

Fyrri leikurinn er útileikur á móti Ungverjum en í stað þess að hittast á Íslandi þá kemur íslenski hópurinn í staðinn saman í Þýskalandi.

Martin Hermannsson snýr nú aftur inn í landsliðið eftir fjarveru vegna meiðsla. Liðið kemur einmitt saman í Berlín þar sem hann býr.

Félag Martins, Alba Berlin, tekur þar mjög vel á móti íslenska landsliðinu þessa mikilvægu daga sem liðið hefur til undirbúnings fyrir hálfgerðan úrslitaleik á móti Ungverjum.

„Íslenska karlalandsliðið er mætt til Berlínarborgar í Þýskalandi þar sem liðið mun vera við æfingar næstu daga. Íslenska sambandinu til halds og trausts er stórlið Alba Berlin, en Ísland fær meðal annars aðgang að æfingaaðstöðu þeirra og liðsrútu,“ segir í frétt á miðlum Körfuknattleikssambands Íslands.

Leikur Íslands úti er gegn Ungverjalandi á fimmtudag, en á miðvikudag mun liðið ferðast til Szombathely þar sem leikurinn fer fram.

Seinni leikur þessa síðasta glugga undankeppni EuroBasket 2025 fer svo fram heima í Laugardalshöll komandi sunnudag gegn Tyrklandi. Sigur í öðrum hvorum leik gluggans tryggir Ísland á lokamótið sem fram fer í lok ágúst.

Ísland vann fyrri leikinn á móti Ungverjum með fimm stigum í febrúar í fyrra en sá leikur var spilaður í Laugardalshöll. Ísland er tveimur sigurleikjum á undan Ungverjum fyrir tvær síðustu umferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×